145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður var prýðilegur að minnsta kosti sem heilbrigðisráðherra á sínum tíma. Ég naut þeirrar ánægju að starfa með honum þá. Hann talar um þau mál af mikilli reynslu og þekkingu. Ég er sammála honum um að við eigum að leyfa okkur þann munað að velta upp ýmsum möguleikum. Ég er líka sammála honum um að það mundi styrkja heilbrigðiskerfið að efla heilsugæsluna, jafnvel með þeim hætti sem hv. þingmaður talar um. En hitt vil ég segja að ég er þeirrar skoðunar að taka eigi upp tilvísanakerfi og þá sé hægt að spara stóra peninga.

En svo vil ég segja líka: Hvað vill hv. þingmaður hingað upp á dekk þegar hann kemur hér einn af þingmönnum úr stjórnarmeirihluta sem ræður og talar um það hvernig kerfið er að blása út? Hverjum á hann að kenna um það? Er þessi hv. þingmaður ekki að fara að styðja fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir að sendiráðum sé fjölgað? Ég spyr hv. þingmann: Hvað með sendiráðið í Strassborg? Ég spyr hv. þingmann: Hvað með Stjórnstöð ferðamála? Svo kemur hann hingað og rífur sig niður í rass yfir því (Forseti hringir.) að það séu of margar ríkisstofnanir og síðasta ríkisstjórn, (Forseti hringir.) eins og hún beri ábyrgð á því, meðan hann ætlar að fjölga sendiráðum og stofnunum.