145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Ég held að það hefði verið mjög gott á sínum tíma að menn hefðu látið tilvísanakerfið fara af stað. En vandinn er sá meðal annars að við erum með svo fáa heilsugæslulækna að við gætum ekki sett það af stað núna, því miður. Það er bara ekki framkvæmanlegt. Það þarf mikið að gerast og meðal annars það sem ég nefndi áðan til að við gætum komið okkur í þá stöðu. Kerfið ræður hreinlega ekki við það með svona fáa og aldraða lækna.

Svo er hv. þingmaður að skamma mig fyrir það að standa ekki nógu vel á bremsunni og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Ég get gert tvennt. Ég get látið eins og ekkert sé eða vakið athygli á þessum sjónarmiðum. Það er það sem ég ákvað að gera. Ég ætla að berjast fyrir þeim áfram. Ég næ ekki öllu mínu fram. Ég mun styðja fjárlagafrumvarpið. Eins og ég nefndi er stóra myndin góð. En ég vil ná meiri árangri. Við vitum það báðir, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að maður nær ekki öllu sínu fram, ekki einu sinni þegar maður er ráðherra. Hvað þá þegar maður er varaformaður hv. fjárlaganefndar.