145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir og ég vona að hann jafni sig á því að hafa verið sammála mér. Ég vona að hann venjist því og að við verðum oftar sammála en ósammála. En ef menn eru ósammála þá eigum við bara að ræða málefnalega um hlutina.

Við erum hins vegar, af því að hv. þingmaður nefndi lífeyriskerfið, ein af sex þjóðum í OECD sem eigum eitthvað í lífeyrissjóðum. Mér brá mikið þegar ég skoðaði það. Þetta er almennt ekki í skuldahlutföllum ríkja. Ástæðan fyrir því að þetta er ekki í skuldahlutföllum ríkja er sú að þjóðir eins og Frakkland eru bara með neitunarvald hvað það varðar að þetta sé í opinberum tölum. Þeir eiga eiginlega ekki neitt í lífeyrissjóðum. Meira að segja öflug risaþjóð í Evrópusambandinu, Þjóðverjar, eiga 5,6% af vergri landsframleiðslu í lífeyrissjóðum. Þeir ásamt Japönum eru elsta þjóð í heimi. Frakkar eiga 1 til 2%, eru mjög gamlir, og Miðjarðarhafslöndin eiginlega ekki neitt. Þar erum við, Bretar, Ástralir, Bandaríkjamenn og aðrir slíkir sem eigum eitthvað og við eigum rúmlega 120% og erum með yngstu þjóðum. Hvað þetta varðar er staða okkar sterk. Verkefnið er hins vegar núna að þú ert með sumt fólk sem á ekkert í lífeyrissjóðum, (Forseti hringir.) er með lítil réttindi. Við þurfum einhvern veginn, ef við mögulega getum, sem við getum auðvitað, að hjálpa því.