145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við erum stundum sammála, ég og hv. þingmaður; ég held að við reynum bæði að tala fyrir því að menn fari fram af ábyrgð, sýni aga og séu faglegir í vinnubrögðum og þar fram eftir götunum. Það kom mér á óvart, þegar ég fékk breytingartillögurnar, hvað það er mikið af tillögum í þeim sem mér finnst eiga heima annars staðar.

Mig langar sérstaklega að spyrja út í þá liði sem ég geri að umtalsefni í nefndaráliti mínu, það eru þessir liðir sem fá fjárveitingu til að koma til móts við uppsafnaðan rekstrarhalla, til að greiða upp uppsafnaðan rekstrarhalla eða tryggja að ekki verði rekstrarhalli á næsta ári. Þarna eru fjórar stofnanir og liðir tilteknir. Við vitum það, ég og hv. þingmaður, að fullt af stofnunum glíma við rekstrarhalla. Ég tel mikilvægt að farið sé með þessi mál á heildstæðan hátt í ráðuneytunum; að stofnanir, sem fá allt í einu 15 milljónir af fjárlögum til að greiða upp rekstrarhalla, (Forseti hringir.) sýni fram á að þær séu þá að minnsta kosti komnar út úr þeim vandræðum sem þær voru í. Er hv. þingmaður ekki sammála mér?