145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta alveg stórkostlegt. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvaða part hv. þingmaður hefur hlustað á af ræðu minni. Hann hefur kannski hlustað á 50%, tekið aðra hverja setningu. Ég var að hrósa síðustu ríkisstjórn fyrir að ná samningum við tannlækna. En ég var að segja að eins og menn nota þau hugtök og orð þá er það einkavæðing. En auðvitað er það engin einkavæðing. Salahverfið er búið að vera hérna og það var Jón Kristjánsson sem bauð þá þjónustu út. Menn eru búnir að taka þetta út hvað eftir annað. Það hefur komið vel út fyrir ríkið og þjónustukannanir koma einstaklega vel út. Hvað er að því? Það er nákvæmlega það sama og menn gerðu og ég var að lesa grein eftir lækni þar sem hann vísar í Svíþjóð og Noreg. (Gripið fram í.) Nei, reyndar, virðulegi forseti, gekk það ekki jafn vel.

Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir. Þess vegna hafa menn farið að nýta sér þessa kosti. Við höfum áratugareynslu. (Forseti hringir.) Hjúkrunarheimilin eru einkarekin og ýmislegt annað. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þessi mál og bið hann kurteislega að hlusta á alla ræðuna mína næst ef hann ætlar að fara í andsvar.