145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:22]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mér virðist við fyrstu sýn að fjárlögin 2016 séu eins konar brauðmolafjárlög en eins og sýnt hefur verið fram á falla brauðmolar velferðar ekkert sérstaklega jafnt niður.

Ég tek undir athugasemdir minni hlutans þegar kemur að vinnubrögðum og hvernig það er gagnrýnt að sumt í fjáraukalögunum sem við vorum að afgreiða ætti helst heima í fjárlögum sem við ræðum núna. Einnig er samráðsleysið og safnliðirnir eitthvað sem hægt er að gagnrýna töluvert mikið. Að öðru leyti finnst mér nefndarálit meiri hlutans mjög athyglisvert, sérstaklega það sem mig langar til að vekja smáathygli á í kaflanum um íþyngjandi löggjöf. Þar segir, með leyfi forseta:

„Annað dæmi og mun umfangsmeira frá fjárhagslegu sjónarmiði eru málefni fatlaðra en ábyrgð á þeim málaflokki fluttist frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011.“

Síðan segir enn fremur um þetta að nær öll sveitarfélög reki málaflokkinn með tapi. Þessu er stillt upp í fjárlagafrumvarpinu eins og það sé togstreita um þetta milli sveitarfélaga og ríkisins en mér finnst að þess þurfi ekki. Það þarf í raun og veru meira samráð, meiri samvinnu og það þarf að gera sveitarfélögum kleift að sinna þessum málaflokkum vel, tryggja að þau hafi fjárhagslega burði til þess. Þótt hér sé sérstaklega talað um NPA-verkefnin þá eru líka ýmis hjúkrunarheimili sem eru á könnu sveitarfélaganna rekin með umtalsverðu tapi, jafnvel 100 millj. kr. tapi, og það þarf einhvern veginn að fjármagna þetta. Það á ekki að vera togstreita milli borgar og ríkis eða sveitarfélaga og ríkis, heldur þarf meiri samvinnu, ekki hótanir um að taka málaflokkinn af sveitarfélögunum heldur finna einhverja betri lausn.

Einnig svífur gamall draugur yfir vötnum þegar hér er gagnrýnt að rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins hafi tvöfaldast á tímabilinu, þ.e. frá 2007–2016. Ég segi nú bara sem betur fer. Það er gleðiefni að rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins hafi tvöfaldast á tímabilinu. Ein af meginástæðunum fyrir bankahruninu, eins og reifað er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir og aðdraganda bankahrunsins, var veikt fjármálaeftirlit, það var aðalástæðan sem rekja má hrunið til þannig að ég fagna því að Fjármálaeftirlitið hefur fengið töluvert meiri pening. Ég fagna því að rekstrarkostnaðurinn hafi tvöfaldast á þessu tímabili. Það er eitthvað sem við eigum ekki að nota sem einhvers konar skammaryrði.

Eftirlitsiðnaðurinn eins og það er oft kallað er til staðar af góðri ástæðu. Eftirlitið er til að vernda fólk, hafa eftirlit með valdhöfum í samfélaginu að miklu leyti. Ég tek undir sjónarmið meiri hlutans um að nauðsynlegt sé að ekki sé stofnað til eftirlits nema það sé einhver ávinningur að því, en það þýðir samt ekki að það eigi ekki að stofna til eftirlits og eftirlit sé alltaf hættulegt eða slæmt fyrir samfélagið í heild.

Það sem mig langar til að gagnrýna við nefndarálit meiri hlutans hið fyrsta er um undirbúning að framkvæmdum við Alþingisreit, að þar skuli eiga að hafa til hliðsjónar teikningar Guðjóns Samúelssonar. Mér finnst það ekki vera við hæfi. Mér finnst þá gengið fram hjá þeim mörgu listamönnum og arkitektum sem eru búnir að mennta sig og það væri alveg við hæfi að leyfa þeim að spreyta sig. Guðjón Samúelsson var góður og mikill arkitekt. Hann skapaði í raun og veru þennan ákveðna stíl yfir Reykjavík og við tökum það ekki af honum, en hins vegar er hans tími liðinn sem er bara mjög eðlilegt, einhvern tíma verða allir menn að deyja og þar fram eftir götunum. Það er kominn tími til að búa til eitthvað nýtt, það er bara allt í lagi, himinn og haf mun ekki farast út af því. Sem sagnfræðingi finnst mér firra að draga upp aldargamla teikningu og hylla hana, í einhverri fortíðarþrá, 20. aldar þjóðernishyggju. Það verður ábyggilega litið á þetta frá sjónarhóli sagnfræðingsins eftir 20 ár sem firru svo ég segi ekki meir.

Einnig langar mig til að gagnrýna lið númer 00-610, um umboðsmann Alþingis. Þar er gerð tillaga 13 millj. kr. lækkun á framlagi til umboðsmanns Alþingis. Til skýringar segir, með leyfi forseta:

„Nú er embættið til húsa í Þórshamri við Templarasund sem er í eigu ríkisins en áður leigði embættið skrifstofuhúsnæði á almennum markaði og þá nam húsaleiga rúmum 13 millj. kr. Þar sem embættið greiðir ekki lengur húsaleigu er lagt til að fjárheimild til hennar verði felld niður.“

Það er ekki svo einfalt að þegar umboðsmaður er fluttur í eigin húsnæði eða réttara sagt húsnæði á vegum Alþingis að allur rekstrarkostnaður sem áður fór til að leigja húsnæði falli niður. Þó að það sé rétt að embættið greiði ekki lengur húsaleigu, þá fellur ýmis annar kostnaður til. Heitt vatn er til dæmis tvöfalt dýrara fyrir þau í núverandi húsnæði þar sem húsnæðið er illa einangrað og eftir því sem ég best veit var asbest í klæðningunni þannig að það á eftir að einangra allt þakið. Það er ýmislegt sem þarf að gera betur, þetta er ekki fullklárað hús. Þetta er hús sem er í eigu ríkisins eða í eigu Alþingis og auk þess fylgir því annar almennur kostnaður að vera í eigin húsnæði. Ég nefni öryggisgæslu á vegum Alþingis, árið 2012 og árið 2011 er kostnaður við almenna öryggisgæslu 225.800 kr. og 244.165 kr. en núna fyrir árið 2014 sem er, nota bene, eina heila árið sem þau hafa verið í þessu húsi þarf umboðsmaður Alþingis að greiða 1.440 þús. kr. til Alþingis til að standa að öryggisgæslu. Auk þess þarf umboðsmaður að greiða húsatryggingu sem er 134 þús. kr. og fasteignagjald, sem er alveg nýr liður sem hann hefur ekki þurft að greiða áður þar sem hann var í leiguhúsnæði, sem er upp á 2,4 millj. kr. eða 2.444 þús. kr. liggur við, þetta er mjög skrýtin tala. Samtals er þetta ný gjöld upp á 4 millj. kr. þannig að það er ekki svo mikill sparnaður við það að hætta að borga leigu, árleg gjöld umboðsmanns minnka en hverfa ekki algerlega þannig að mér finnst mjög slæmt að verið sé að taka 13 millj. kr. frá umboðsmanni Alþingis á þeim forsendum að embættið greiði ekki lengur húsaleigu. Ekki er tekið með í reikninginn að það er ekki eins og allur rekstrarkostnaður þurrkist bara út. Auk þess er margur annar kostnaður sem fylgir húsnæði. Þetta hús er gamalt, er eitt af fyrstu stóru steinhúsunum sem byggð eru í Reykjavík, byggt 1914 ef mig minnir rétt, og var fyrst íbúðarhúsnæði þannig að þetta er mjög stórt og glæsilegt hús sem væri hægt að gera mjög veglega upp. Við skulum ekki gleyma því að umboðsmaður Alþingis er líka starfsmaður Alþingis í raun og veru. Hann vinnur fyrir okkur.

Annað sem má nefna í þessu samhengi sem eykur rekstrarkostnað er mötuneytiskostnaður Alþingis, mötuneytiskostnaður fyrir starfsfólk umboðsmanns er 1 millj. kr. á ári þannig að rekstrarkostnaður umboðsmanns Alþingis er ekki lengur kannski 13 millj. kr. heldur er hann kominn niður í svona 8 millj. kr. að þessu leyti og það þarf að taka tillit til þess þegar við fellum niður fjárheimildina sem á að vera fyrir leigukostnaði. Auk þess þarf að gera aðgengi fyrir fatlaða í húsnæði umboðsmanns Alþingis, mér finnst það grundvallarprinsipp fyrir daginn í dag að fatlaðir geti komist og talað við umboðsmann eins og allir aðrir. Það mun kosta um 6 millj. kr. eða 8 millj. kr. sem munu þurfa til þess. Það er því margt sem þarf að gera fyrir umboðsmann Alþingis. Hins vegar leggjum við í minni hlutanum til breytingartillögu upp á 15 millj. kr., en þær eru ekki til að koma til móts við þennan rekstrarkostnað. Mér finnst að meiri hlutinn þurfi aðeins að íhuga þennan 13 millj. kr. frádrátt og reyna að eiga betra samtal við umboðsmann Alþingis um hvað það er sem hann þarf og hversu mikið hann þarf til reksturs. Við viljum að 15 millj. kr. verði varið til að ráða starfsmann til að vera í frumkvæðisrannsóknum. Umboðsmaður Alþingis sinnir miklu og góðu eftirlitshlutverki fyrir hönd Alþingis. Það er mjög mikilvægt að hann hafi efni til að stunda frumkvæðisrannsóknir. Það er eitthvað sem mér finnst mjög mikilvægt og þess vegna leggjum við til að 15 millj. kr. verði eyrnamerktar því að ráða sérstaklega nýjan starfsmann, bæði til að sjá um daglegan rekstur svo umboðsmaður sjálfur þurfi ekki að vera í daglegu amstri og sjá um rekstur sjálfs hússins, og til að ráða manneskju sem getur verið í frumkvæðisrannsóknum, alla daga helst.

Mig langar einnig til að spyrja um lið sem heitir Ýmis framlög innanríkisráðuneytisins og vona að hv. þingmenn meiri hlutans sem sitja í salnum geti svarað mér. Þar er gerð tillaga um 4 millj. kr. tímabundið framlag til Biblíufélagsins í tilefni af 200 ára afmæli félagsins. Til hvers á að nota peninginn? Af hverju kemur þetta inn svona? Um hvaða félag er verið að tala? Er þetta Hið íslenska biblíufélag og af hverju er það þá ekki tilgreint sem Hið íslenska biblíufélag í greinargerðinni? Ég vek athygli á þessum lið og ég mundi vilja fá betri útlistun á honum því mér finnst þetta vera ankannalega forgangsröðun, það er hægt að nota 4 millj. kr. í eitthvað annað, t.d. það sem mig langar til að tala um á eftir þessu sem er breytingartillaga sem ég legg fram um úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þannig er að úrskurðarnefnd um upplýsingamál búið að umboðsmaður Alþingis hefur hafið frumkvæðisrannsókn á því af hverju úrskurðarnefndin sé með svona langan hala og skili ekki af sér á tilsettum tíma, lögum samkvæmt á hún að skila af sér innan ákveðins tíma en þar er kominn mikill hali vegna þess að afgreiðslutími nefndarinnar hefur lengst mjög mikið. Þess vegna gerum við píratar tillögu um 5 millj. kr. framlag til að fjármagna hálft stöðugildi hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Okkur þykir rík ástæða til þess að bæta við hálfu stöðugildi og eftir því sem við komumst næst eftir að hafa talað við formann nefndarinnar, þá mundi þetta breyta mjög miklu. Ástæðan fyrir þessum langa afgreiðslutíma og mikla hala er að gildissvið nýrra laga um upplýsingamál hefur víkkað mjög mikið og þar af leiðandi hefur kærum til nefndarinnar fjölgað jafnframt því sem einstök mál sem vísað er til nefndarinnar verða sífellt flóknari þannig að það er full nauðsyn til að bæta við þessum 5 millj. kr. til úrskurðarnefndarinnar og eyrnamerkja þær fyrir annað hálft starf eða hálft stöðugildi til að geta unnið á þessum hala. Þetta er mikilvæg nefnd. Hún sér til þess að þeir sem vilja fá upplýsingar um störf ríkisins og stofnanir ríkisins fái þær og það er mjög mikilvægt að hún sinni starfi sínu vel.

Að öðru. Ég vil fagna tillögu meiri hlutans um samtals 45 millj. kr. hækkun framlags til Fangelsismálastofnunar ríkisins en okkur langar til að leggja til að þessi hækkun verði 80 millj. kr. Miðað við hvernig búið er að fangelsum dagsins í dag, þá er bara tímaspursmál hvenær eitthvað hræðilegt gerist. Það er enginn á bakvakt, það er mjög mikið álag á starfsfólkinu, á Litla-Hrauni eru ákveðnir vinnustaðir eða vinnuskálar bara hreinlega varla fokheldir og það væri mjög áhugavert að fá að vita hver afdrif þessara vinnuskála voru eftir storminn í gær, hvort þeir hafi hreinlega haldið. Það þarf að leggja miklu meira fé í þennan málaflokk þannig að við leggjum til að settar verði í hann að minnsta kosti 80 millj. kr. að viðbættri þessari 45 millj. kr. hækkun, og þar af verði 50 millj. kr. sérstaklega eyrnamerktar Litla-Hrauni. Niðurskurður sem fangelsin hafa þurft að þola undanfarin ár hefur gengið mjög hart að þeim og staðan er sú að allur tækjabúnaður og þjónusta við fanga er gífurlega slæm. Í fyrra, á árinu 2014 voru það 174 dagar af 365 sem fangar fengu ekki fulla lögboðna þjónustu vegna manneklu. Þetta er eitthvað sem er ekki mönnum bjóðandi í nútímasamfélagi.

Ef við ætlum að líta á fangelsi sem stofnun þar sem fram fer betrun þá þurfum við að gera miklu betur. Oft eru mjög veikir einstaklingar á þessum stofnunum og þeir þurfa á mikilli hjálp að halda. Það er ódýrara fyrir okkur þegar til lengri tíma er litið að mennta fólk og sýna því mannúð og gefa því kost á betrun heldur en að loka það inni í 6 ár eða 20 ár eða hvað sem það nú er og vonast bara til þess að það komi betra út. Við þurfum að leggja eitthvað á okkur til að ná því markmiði og ég vona að meiri hluti fjárlaganefndar sé sammála mér í þessu. 15 millj. kr. og 30 millj. kr. til stofnunarinnar er fallegt en hins vegar þarf miklu meira.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni.