145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:53]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns um að það verði að vera sérstakur fjárlagaliður til að umboðsmaður hafi fjárhagslegt öryggi til að sinna frumkvæðisathugunum. Það þarf líka að vera ákveðið fjárhagslegt öryggi svo að umboðsmaður þurfi ekki að nýta aðra liði í rekstrinum. Eins og hefur komið fram í máli mínu áður eru launaútgjöld 83% af heildarútgjöldum umboðsmanns. Við erum að tala um mjög afkastasama stofnun.

Það er eins og verið sé að refsa umboðsmanni fyrir að hafa gert samning við Alþingi um að flytja í hús sem er í eigu Alþingis og hefði annars verið vannýtt. Eitt af þeim skilyrðum sem lágu þar að baki var að gera húsið almennilega nothæft. Það hefði verið betra fyrir umboðsmann að vera áfram í leiguhúsnæðinu en það hefði verið dýrara fyrir Alþingi.

Mér finnst mjög eðlilegt að koma til móts við fjárþörf umboðsmanns.