145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og get tekið undir með henni varðandi ansi margt. Sumu sem hún hefur nefnt í ræðum sínum hér á þingi hef ég ekki veitt sérstaka athygli, til dæmis úrskurðarnefnd upplýsingalaga sem hún ræddi töluvert. Hv. þingmaður kom aðeins inn á að gildissvið laganna hefði verið víkkað, að kærum hefði fjölgað, ef ég skil rétt. Gæti hún kannski útskýrt nánar hvert hlutverk nefndarinnar er? Eru það eingöngu stofnanir ríkisins eða á þessi úrskurðarnefnd upplýsingalaga á að sinna einhverju öðru?

Ég get alveg tekið undir að það er mjög mikilvægt að við höfum eftirlitskerfi og gerum kerfið okkar gagnsærra en það er, alveg á sama hátt og ég tek undir með henni varðandi umboðsmann Alþingis. Ég hef talað fyrir því að það embætti verði einmitt styrkt m.a. með frumkvæðisathugunum, eins og hv. þingmaður kom inn á, af því að hluti af því mikilvæga hlutverki sem umboðsmaður hefur er að hann sé óháður þinginu þrátt fyrir að hann heyri undir forsætisnefnd, t.d. þegar kemur að launakerfum og öðru slíku. Umboðsmaður er sá aðili sem við treystum á að almenningur geti leitað til og við þingmenn og fleiri, þannig að ég tek undir það.

En mig mundi langa til að þingmaðurinn útskýrði tillögu sína örlítið nánar, þ.e. hvert starfssvið slíkrar upplýsinganefndar er.