145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir þetta. Ég hafði ekki áttað mig á því eða að umboðsmaður væri að hefja frumkvæðisrannsókn á þessu máli. Það er áhugavert að vita hvort það liggja fleiri ástæður að baki þessu en bara mannekla, sem mér heyrist þó vera helsta ástæðan fyrir þeim hala sem myndast hefur. Ódýrasti kosturinn er að ráða í hálfa stöðu, eins og þingmaðurinn segir. Það er merkilegt að hugsa til þess að það skuli þurfa að fara í svona ferli, að það skuli þurfa að ná í svona úrskurði. Það er þá væntanlega tregi í kerfinu til að veita upplýsingar.

Síðan langaði mig í restina að segja að ég tek undir með hv. þingmanni varðandi fangelsismálin. Ég tek undir með fangelsismálastjóra. (Forseti hringir.) Ég held að það sé ekki nóg að gert í því frumvarpi sem liggur fyrir um fullnustu refsinga, sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaðurinn hafi kynnt sér. (Forseti hringir.) Hún er mér væntanlega sammála um að fjármunirnir sem veittir eru (Forseti hringir.) í fjárlögum til þessara mála og viðbótin nægja ekki.