145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að fyrirkomulag veiðigjalda í tíð síðustu ríkisstjórnar og fjárhæð veiðigjalda þá, sem vissulega er rétt að var í krónutölu áþekk því sem nú er, var upphaf á ferli sem átti að skila þjóðinni alvöruarði af auðlindinni og eðlilegri hlutdeild í auðlindarentunni sem verður til í atvinnugreininni vegna ókeypis aðgangs að auðlind þjóðarinnar.

Það er eðlilegt að útgerðarmenn greiði fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum eins og allir sem fá aðgang að sameiginlegum auðlindum. Það er réttlætismál og það tryggir jafnstöðu atvinnugreina. Ég veit að það hugtak er framandi þingmönnum þessa ríkisstjórnarmeirihluta sem keppast að því að búa til aðstöðumun milli atvinnugreina með því að gefa sumum aðgang að sameiginlegum auðlindum en skattleggja aðra fyrir að hafa fólk með þekkingu í vinnu, fyrir þann stóra glæp að reyna að byggja upp þekkingu í landinu.

Besta fyrirkomulag veiðigjalda er það sem Samfylkingin hefur alltaf lagt til sem er fyrningarleiðin (VigH: Af hverju gerðuð þið það ekki?) — vegna þess að okkur skorti til þess félaga sem væru tilbúnir að leyfa okkur að koma því í gegn, vegna þess að við höfðum ekki þingmeirihluta, Samfylkingin, á síðasta kjörtímabili. Fyrningarleiðin er langbesta leiðin þar sem hluti veiðiheimildanna fyrnist, þar sem þær fara á markað, mynda markaðsverð með aflaheimildir og tryggja þannig eðlilega verðmyndun á markaði. Það þarf ekki að vera ákvarðað gjald, of hátt í einstaka tilvikum eða allt of lágt, eins og nú er, í öðrum.