145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það upplýsist margt hér þegar fer að líða að nóttu. Í fyrsta lagi svaraði þingmaðurinn því ekki hvort búið væri að uppprenta nefndarálit 1. minni hluta fjárlaganefndar og í öðru lagi kom fram að Samfylkingin hefði setið sex ár í ríkisstjórn og haft á stefnuskrá sinni að taka upp fyrningarleið í sjávarútvegi en aldrei haft til þess þingmeirihluta, sitjandi samt í tveimur ríkisstjórnum.

Auðvitað er þetta ekki boðlegt, virðulegi forseti, og skýrir það hvers vegna flokkurinn mælist svo lítill og hvers vegna hann var kosinn eftirminnilega frá völdum ásamt samstarfsflokki sínum í síðustu kosningum. Vinstri – grænir hafa alveg sömu skoðun og Samfylkingin í sjávarútvegsmálum, að taka upp fyrningarleiðina og þjóðnýta sjávarútvegsauðlindina, í stað þess fyrirkomulags sem víða er viðurkennt, kvótakerfis. Ég minni á að íslenskur sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. — Virðulegur forseti. Þetta er því bæði gjaldþrotamálflutningur og gjaldþrotastefna.

Þingmaðurinn fór yfir það í ræðu sinni varðandi flóttamenn — ég ætla að grípa hér ofan í nefndarálit frá 1. minni hluta fjárlaganefndar, með leyfi forseta, sem ber yfirskriftina: Flóttamenn.

„Samfylkingin hefur lagt fram þingsályktun þar sem lagt er til að íslenska ríkið taki á móti að minnsta kosti 500 flóttamönnum á næstu þremur árum, enda fjölgar flóttafólki hratt og staða þess fer versnandi.

Samkvæmt tillögu Samfylkingarinnar verður stefnt að því að minnsta kosti 100 flóttamönnum verði boðin dvöl hér á landi árið 2015, 200 árið 2016 og 200 árið 2017. […] Í því samhengi er tillaga um að Ísland taki á móti að lágmarki 500 manns á þremur árum bæði hófleg og eðlileg.“

Virðulegi forseti. Ég spyr því hv. þm. Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar: Hvað kostar sá tillöguflutningur sem birtist (Forseti hringir.) hér í þessu nefndaráliti? Ég finn hvergi breytingartillögu til útgjaldaauka í breytingartillögu minni hlutans.