145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst til að svara þessari spurningu: Eins og hv. þingmaður veit mætavel þá býðst stjórnarandstöðu ekki að láta kostnaðarmeta frumvörp sem hún leggur fram. Það er mikill galli; galli á þinginu, galli á umgjörð þingsins og eðlilegt að hv. þingmaður beini því og tryggi fjárveitingar til þingsins til þess að við getum fengið kostnaðarmat á frumvörpum stjórnarandstöðu, það væri mjög til bóta. Þess vegna get ég ekki svarað nauðsynlegri spurningu um kostnað. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa ekki aðstöðu til að láta reikna hann út.

Varðandi (Gripið fram í.) spurningu hér áðan um útvarpsgjaldið þá er mjög merkilegt að heyra stjórnarmeirihlutann klifa á því að það hafi verið síðasta ríkisstjórn sem ákvað lækkun útvarpsgjaldsins niður í 16.400 kr. Það er bara alrangt. (VigH: Lög 23/2013.) Lög 23/2013 fjölluðu um útvarpsgjaldið, þeim var breytt með fjárlagabandormi þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, í desember 2013, í frumvarpi um tekjuforsendur fjárlaga. Í þeirri breytingu var kveðið á um lækkun niður í 16.400 kr. Hv. þingmaður verður að kannast við eigin verk, þetta er hennar verk, þetta er í boði hennar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Þetta er tekjubandormur ríkisstjórnar meiri hlutans sem nú situr (Gripið fram í.) og það stendur. Það er ótrúlegt að þurfa að standa hér í að munnhöggvast við formann fjárlaganefndar um augljósar staðreyndir um það sem stendur í lögum sem hún sjálf hefur staðið fyrir að setja. Það hlýtur að stappa nærri heimsmeti í ruglumræðu við fjárlagagerð.

Það er ósköp einfaldlega þannig að þessi ríkisstjórn ákvað lækkun útvarpsgjaldsins og þessi ríkisstjórn verður að standa við sín eigin verk. Hún getur ekki í þessu, eins og í öllu öðru sem hún hefur reynt að gera, alla sína tíð, skýlt (Forseti hringir.) sér á bak við síðustu ríkisstjórn. Hún verður einu sinni að reyna að standa fyrir eigin verkum.