145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Áður en þeirri spurningu forseta er svarað vil ég inna forseta eftir hversu lengi hann hyggst halda áfram fundi í kvöld. Maður hefur vissan skilning á því að hér þurfi að halda kvöldfund eftir það slugs sem verið hefur í fjárlaganefndinni á þessu haustþingi þar sem fjárlaganefnd fékk fjárlögin og fylgifrumvörp til umfjöllunar nærfellt mánuði fyrr en venjulega, en fór tíu daga fram yfir starfsáætlun þingsins þegar hún kom málinu til 2. umr. Það er hægt að reyna að hjálpa til við að vinna upp þennan halla með því að hafa hér kvöldfundi. En ég tel algerlega óboðlegt að þingmenn þurfi að tala hér um jafn mikilvæga lagasetningu og fjárlög eftir miðnætti.

Ég inni því forseta eftir því hvort að kvöldfundur í þessum skilningi sé hugsaður fram að miðnætti, sem ég tel ekki ósanngjarna kröfu af hans hálfu, eða hvort hann hyggist halda fundinum lengur áfram.