145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er nú erfitt að ræða þetta í dagsbirtu vegna þess að farið er að dimma um kaffileytið. Það yrði þá stuttur þingfundur að þessu sinni.

En það er mjög löng mælendaskrá í fjárlagafrumvarpinu og þar eru bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar og er fullkomlega eðlilegt að menn vilji tjá sig mikið um það mál.

Ég styð þá tillögu forseta að við höfum lengri þingfund inn í kvöldið eða nóttina eftir atvikum þar sem við getum haft tækifæri til þess að ræða þessi mál. Fluttar voru nokkrar ræður í gær, allflestar ef ekki allar (ÖS: Allar góðar.) einstaklega góðar og fræðandi ræður þar sem menn fluttu sín nefndarálit. Ég á eftir að flytja ræðu í dag ásamt nokkrum öðrum framsóknarmönnum. Ég hvet því forseta til þess að við höfum hér þingfund fram eftir kvöldi og jafnvel inn í nóttina ef á þarf að halda vegna þess að mönnum liggur mikið á hjarta og það á jafnt við um stjórn og stjórnarandstæðinga.

Ég skil eiginlega ekki af hverju menn gera athugasemdir við það að við vinnum hér fram eftir. Það er bara ekkert athugavert við það. Menn (Forseti hringir.) hljóta að vera vanir því að taka til hendinni endrum og sinnum og vera tilbúnir til að vinna fram eftir.