145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Öllum þingheimi er kunnugt um afstöðu mína til næturfunda. Ég hef stundum sagt að þingmaður verði ekki fullskapaður fyrr en hann hefur séð dag rísa út um glugga þinghússins. (Gripið fram í.) Mér sýnist ekki vanþörf á því að halda hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur nokkrar nætur í þinginu (VigH: Rétt.) því að bersýnilega hefur ekki runnið upp fyrir henni hvernig stendur á þeirri stöðu sem hér er komin upp. Hér kemur hv. þingmaður og dregur mig inn í þessa umræðu, [Hlátur í þingsal.] en ég er ekki einu sinni, herra forseti, á mælendaskrá. [Hlátur í þingsal.] Ef það er krafa formanns fjárlaganefndar að ég setji mig á mælendaskrá til að halda nokkrar messur yfir henni er ég reiðubúinn til þess því að staðreyndin er sú að við erum í þessari stöðu vegna þess að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir stendur sig ekki í stykkinu. Slugs hennar í forustu fjárlaganefndar veldur því að nú er verið að leggja til (Forseti hringir.) að þingmenn vinni ekki bara dögum saman heldur nóttum saman til að vinna upp hennar — ja, ég vil ekki segja það sem mér kom í huga. (Gripið fram í: Láttu það koma.) Ég ætla ekki að segja leti og ómennsku en að minnsta kosti skort á getu til að leiða störf fjárlaganefndar. (Forseti hringir.) Gleymum því ekki að fyrir þennan ágæta þingmann var þingi flýtt um tvær vikur en hún er samt tíu dögum á eftir áætlun og ég er reiðubúinn fram á næsta þing til að vinna upp vinnusvik hennar í forustu fjárlaganefndar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)