145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

lengd þingfundar.

[15:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er alveg einnar messu virði, held ég, þetta sem hér hefur komið fram. Ég tek undir undirtóninn, auðvitað hefur fjárlaganefnd og forusta hennar komið mjög seint fram með gríðarlega umfangsmiklar breytingartillögur til 2. umr. fjárlaga. Þær fengu enga umræðu í nefndinni. Það var í rauninni ekki tækifæri til þess sökum þess að málið er sett á dagskrá svo skömmu seinna að nefndarmenn í minni hluta fjárlaganefndar þurftu þann tíma frá því að tillögurnar voru lagðar fram og þangað til umræða hófst til að vinna sín nefndarálit. Staðan núna er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en það er óþarfi að klína því á eitthvert málþóf minni hlutans. Hvaða málþóf? Breytingartillögurnar voru að koma fram. Það eru þær sem eru til umræðu, það er ekkert sem hefur truflað, ekki neitt hefur truflað þessa fjárlagaumræðu. Hér hafa nánast einungis fjárlaganefndarmenn (Forseti hringir.) talað fyrir utan formann Samfylkingarinnar sem talaði síðastur í gærkvöldi, undir miðnætti.

Virðulegi forseti. Hver er töfin? Ég bið líka um það sem var innihald umræðunnar í upphafi, að við fundum ekki lengur en til miðnættis.