145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Fanný Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og allir vita skrifa hv. þingmenn undir drengskaparheit að stjórnarskránni, fylla út í staðlaða hagsmunaskrá sem öllum stendur opin og starfa samkvæmt sannfæringu sinni og reglum um þingsköp.

Nú er unnið að sérstökum siðareglum innan þingsins. Ég hef lesið yfir tillögu til þingsályktunar um siðareglur fyrir alþingismenn. Mér er almennt annt um siðareglur enda eiga þær að skerpa á þeim reglum sem einstaklingur skal haga störfum sínum eftir.

Í fyrrgreindri þingsályktunartillögu stendur í lið c undir yfirskriftinni Meginreglur um hátterni að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni.

Og um hátternisskyldur stendur, með leyfi forseta:

„Þingmenn skulu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu og fylgja meginreglum um hátterni og aðhafast ekkert með athöfnum sínum sem kann að skaða orðspor, tiltrú og traust almennings á Alþingi.“

Ég er eðlilega hlynnt þeirri hugsun sem hér kemur fram enda endurspeglar hún almennar kurteisisreglur og samskiptahætti. Ég veit einnig að Alþingi nýtur því miður ekki almenns trausts meðal þjóðarinnar og að störf og framganga hv. þingmanna eru undir smásjá. Í ræðu og riti hafa þingmenn oftsinnis rætt þessa stöðu og lýst yfir vilja sínum til að breyta þessari neikvæðu ásýnd. Ég er því hugsi yfir því yfirbragði sem birtist landsmönnum, samanber ítrekuð neikvæð og truflandi frammíköll þegar þingmaður flytur mál sitt úr þessum ræðustól. Að temja sér slíkt brýtur að mínu mati smám saman niður sjálfsvirðingu þingmanna og skaðar ímynd, orðspor, tiltrú og traust almennings á Alþingi.

Ég spyr mig því hvort þetta háttalag brjóti í bága við þau drög að siðareglum sem þingmenn eru nú að vinna að.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna