145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er mikilvægt þegar verið er að tala um kjör eldri borgara og öryrkja að tala ekki bara um krónur og aura fyrir hönd ríkissjóðs. Það skiptir máli að á bak við allar tölur er fólk og hvort það getur lifað af því sem það hefur.

Það sem mig langaði helst að gera að umtalsefni núna eru orð Tómasar Guðbjartssonar, læknis á Landspítalanum, sem fer hörðum orðum um forustu fjárlaganefndar. Einnig langar mig að ræða viðbrögð við tillögum meiri hluta fjárlaganefndar um fjármuni til spítalans vegna aukafjárveitingar til að tryggja grunnþjónustu og endurbætur á húsnæði. Tómas fer yfir það hvað þar er helst um að ræða, m.a. jáeindaskannann og lifrarbólguverkefnið sem formaður fjárlaganefndar hefur hér tekið til umræðu. Hún segir að ríkið hafi sloppið tiltölulega ódýrt frá verkefninu og kallar það hliðarverkefni af því að einkaaðilar hafi hlaupið undir bagga með miklu framlagi, hvort sem um er að ræða einstaklinga, félagasamtök eða aðra slíka. Það sem nýjast er á spítalanum snýr í rauninni ekki að því að hið opinbera hafi lagt svo gríðarlega til Landspítalans. Eins og við þekkjum borgaði Íslensk erfðagreining jáeindaskannann, læknar hafa lagt fram fé vegna lifrarbólgulyfsins o.s.frv.

Formaður fjárlaganefndar talar um sögulega sátt og úttekt á spítalanum sem búið er að gera og þarf ekki að gera aftur vegna þess að hún leiðir væntanlega að sambærilegri niðurstöðu, að spítalinn sem slíkur er ekkert illa rekinn, og þess vegna er miður þegar talað er um að horfa til aukinna framlaga (Forseti hringir.) að ekki sé horft til raunstöðunnar. Eins og hefur verið rakið er þetta að dragast saman um tæplega þriðjung ef talað er um heildarútgjöld ríkisins en þörf spítalans eykst, m.a. vegna fjölgunar eldri borgara.


Efnisorð er vísa í ræðuna