145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mig undrar málflutningur stjórnarliða í sambandi við kjör elli- og örorkulífeyrisþega. Menn skauta létt fram hjá staðreyndum. Það rétta er að grunnlífeyrir hækkaði um 3,6% fyrir árið 2014 og hækkunin var svo lækkuð niður í 3% fyrir 2015. Bæði þessi ár hefur launavísitalan hækkað meira en þetta. Það liggur fyrir. Ef maður lítur til baka á síðustu tvö ár þessarar ríkisstjórnar sér maður misgengi á þeim fjárhæðum sem þetta hefur tekið breytingum um og eins ef maður lítur á þróun á launamarkaði. 3% á þessu ári eru langt undir meðallaunahækkunum í öllum almennum kjarasamningum, gerðardómum og kjaraúrskurðum, hvað þá hækkun lægstu launa. Það liggur fyrir. Það þýðir lítið að fara í milljarðasamantalningar án þess að taka tillit til magnaukningar í kerfunum, einfaldlega fjölgunar þeirra sem fá þessar greiðslur, og margra annarra þátta. Það er ekki boðlegur málflutningur.

Það er eitt mjög nærtækt fordæmi um það hvernig á að bregðast við gagnvart þessum hópum ef gerðir eru kjarasamningar með umtalsverðum hækkunum á miðju ári. Það er árið 2011. Þá voru gerðir kjarasamningar með sérstakri hækkun lægstu launa. Það voru nokkuð dýrir samningar sem tóku verulega í fyrir ríki og sveitarfélög, eins og þessir. Þá var ekki gott í ári, en hvað gerðu menn? 1. júní 2011 hækkaði grunnfjárhæð ellilífeyris og örorkulífeyris um 8,1%. Lágmarksframfærsluviðmiðið hækkaði um 12 þús. kr. 1. júní 2011 fengu allir í þessum kerfum 50 þús. kr. eingreiðslu eins og samist hafði um á almennum vinnumarkaði. Það er algerlega ósambærilegt við það sem núverandi ríkisstjórn ætlar að gera og meiri hluti hennar, að hafa af mönnum afturvirka leiðréttingu vegna ársins í ár og taka meðalþróun launa en ekki hækkun lægstu launa. Það er haft af öryrkjum (Forseti hringir.) og ellilífeyrisþegum á báða bóga með þessari framkvæmd ríkisstjórnarinnar. Það liggur fyrir. Það er bara staðreynd, hvað sem hver segir. Og ætlið þið að láta ykkur hafa það að fara þannig heim í jólafrí?


Efnisorð er vísa í ræðuna