145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:42]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú berast okkur þau válegu tíðindi frá Bandaríkjunum, Frakklandi og víðar að öfgaþjóðernishyggja og rasismi sé jafnvel að skjóta rótum. Ummæli forsetaframbjóðanda repúblikana um algert bann við komu þeirra sem eru múslimatrúar til Bandaríkjanna eru ógnvænlegar sem og undirtektir stuðningsmanna hans. Sem betur fer urðu margir til þess að bregðast hart við en það er ástæða fyrir okkur til að fylgjast vel með framvindu umræðunnar um þessi mál þar í landi.

Sigur öfgahægriflokksins Front National í fyrri umferð héraðskosninganna í Frakklandi um síðustu helgi er jafnframt mikið áhyggjuefni enda byggja grunngildi flokksins á öfgafullum þjóðernisáherslum. Héraðsyfirvöld í Frakklandi eru mjög áhrifamikil í landinu og niðurstöður kosninga til héraðsstjórna gefa oft vísbendingu um strauma og stefnur í landspólitíkinni þar.

Á Alþingi Íslendinga hvílir sú ríka skylda að vera vakandi fyrir því að öfgafull umræða, þjóðernishyggja og fordómafull umræða nái ekki að festa rætur á Íslandi. Það er því miður farið að glitta í hana á samfélagsmiðlum og kannski víðar.

Rauði krossinn, ýmis félagasamtök, Borgarleikhúsið og fleiri eiga þakkir skildar fyrir að opna umræðuna og langar mig að nota tækifærið hér í ræðustóli Alþingis og þakka þeim sérstaklega fyrir framlag þeirra í þessum efnum.

Ég ítreka að ábyrgð Alþingis er mikil og ég hvet alla þingmenn til að sporna gegn allri umræðu, ummælum og aðgerðum sem miða að því að sundra þjóðfélagi okkar í stað þess að sameina það. Við verðum að gefa gott fordæmi og haga orðum okkar þannig hér í þessum ræðustól að landsmenn trúi að við getum rætt mikilvæg og umdeild málefni án gífuryrða og án þess að vanvirða hvert annað. Fordómar af öllu tagi (Forseti hringir.) með tilheyrandi mismunun og vanvirðingu á trú, siðum og menningu annarra eru sérhverju samfélagi hættulegir.


Efnisorð er vísa í ræðuna