145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

störf þingsins.

[15:44]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Með þínu leyfi:

„Markmið þessara laga er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“

Svona er þetta skýrt og skorinort í lögum um málefni fatlaðs fólks. Það ætti því ekki að þurfa að minnast oft á þetta hér. Því miður þarf þess samt og ég mun ekki þreytast á að rifja upp hér hvað var samþykkt og hverju fötluðu fólki var lofað. Jafnrétti, sambærileg lífskjör, skilyrði til eðlilegs lífs.

Í lögunum segir skýrt að taka skuli mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Virðing og tillitssemi eru meginþættirnir í þeim samningi. Í lögunum er líka mælt fyrir um að ljúka skuli samstarfsverkefni um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar á árinu 2016 og skuli hún vera eitt meginform þjónustu við fatlað fólk.

Hvernig gengur þetta NPA-verkefni sem á að gagnast stjórnvöldum til þess að uppfylla skyldu sína gagnvart fötluðu fólki? Verkefnið er í algjörri pattstöðu, herra forseti. Stjórnvöld láta sem þau geti ekki fundið krónur í það. Samt hrópa hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra: Góðæri, góðæri! Þetta góðæri virðist ekki ætlað fötluðu fólki.

Hvað þýðir þetta fyrir fatlað fólk sem í hlut á? NPA-samningar þess duga ekki fyrir kostnaði vegna kjarasamninga, þjálfunar og veikindaforfalla starfsfólks. Allt eru þetta þó fyrirséðir kostnaðarliðir. Sumir notendur eru nú krafðir um mörg hundruð þúsund krónur vegna þessa.

Allir NPA-samningar hjá Reykjavíkurborg renna út um áramótin. Fatlað fólk sem hefur þessa samninga er í fullkominni óvissu, og ekki aðeins það fólk. Starfsfólkið sem veitir NPA-þjónustuna veit ekkert hvað gerist þá heldur.

Hvers lags vinnubrögð eru þetta, herra forseti? Þetta eru skammarlega vond stjórnmál og frámunalega léleg stjórnsýsla. Er þetta virðingin og tillitssemin sem markmið laga um málefni fatlaðs fólks og samningur Sameinuðu þjóðanna grundvallast algjörlega á? Nei. Og það er langverst. Þetta er fullkomin vanvirðing og skeytingarleysi gagnvart fötluðu fólki og aðstandendum þess, lífi þess, tilfinningum og mannlegri reisn.

Við getum gert betur, herra forseti.


Efnisorð er vísa í ræðuna