145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:57]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Við hefjum hér að nýju umræður um breytingartillögur, 2 umr. um fjárlagafrumvarpið og breytingartillögur við það sem voru fyrst ræddar á þingfundi í gær og fluttar um þær margar ágætar ræður. Ég tel rétt sem starfandi nefndarmanni í fjárlaganefnd að fara til viðbótar yfir nokkur atriði sem þar komu fram. Margar góðar ræður voru fluttar og er rétt í upphafi að fjalla aðeins um störf fjárlaganefndar á þessu hausti, sem er búið að vera óvenjulangur meðgöngutími á þeim breytingum og umræðum þar sem fjárlagafrumvarpið kom óvenjusnemma fram.

Vinna í fjárlaganefnd er að því leyti sérstök í samanburði við aðrar þingnefndir að í henni felast mikil samskipti við marga umsagnaraðila. Á þessu hausti var komið í 42 heimsóknir til nefndarinnar og komu 42 umsagnir, 42 sveitarfélög og landshlutasamtök og fleiri. Það eru í rauninni erindi þessara gesta og umsagnir þeirra sem grundvalla síðan þær breytingar sem fjárlaganefnd leggur til í tillögum sínum við fram komið frumvarp hverju sinni. Það er nokkuð fróðlegt að horfa á og taka saman þegar haustið er liðið hverjar áherslur gesta okkar voru. Áherslur gesta okkar að þessu sinni voru kannski fyrst og fremst á sviði tillagna þeirra um úrbætur í samgöngumálum, að of lítið sé aðhafst í þeim efnum, og á sviði fjarskipta og áherslu margra landsbyggðarsveitarfélaga á úrbætur í fjarskiptamálum. Mörg sveitarfélög báru uppi miklar áhyggjur af rekstri lítilla og meðalstórra hjúkrunarheimila eða lítilla hjúkrunarheimila sem vegna staðhátta eiga litla samlegð eða sameiningarmöguleika við aðrar stofnanir, einfaldlega vegna landfræðilegra aðstæðna, þau eru staðsett í þannig byggðarlögum. Mörg sveitarfélög ræddu um málefni fatlaðra og fjárhagsleg samskipti í þeim málaflokki. Flest sveitarfélögin komu einnig með áskoranir um endurskoðun á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Þetta eru í mínum huga stóru umræðuefnin eða þau umræðuefni sem langflest sveitarfélögin færðu inn á borð fjárlaganefndar á þessu hausti. Ekki koma þau á óvart, í það minnsta ekki þingmönnum dreifbýliskjördæma. Áhersluatriðin eru líka mjög áþekk þeim áherslum sem komu fram á fundum fjárlaganefndar á síðastliðnu hausti og var þá að nokkru leyti svarað af hendi hv. fjárlaganefndar með tillögugerð og seinna samþykktu fjárlagafrumvarpi.

Stóru tíðindin í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum núna eru gríðarleg útgjöld ríkissjóðs vegna kjarasamninga og annarra liða sem þeim tengjast. Við erum að fást við að mæta útgjöldum upp á 33 milljarða kr., það eru 33 milljarðar kr. í aukin útgjöld ríkissjóðs vegna kjarasamninga. Þeim útgjöldum tengt bætast líka við aðrar skuldbindingar ríkissjóðs eins og lífeyrisskuldbindingar, sem samkvæmt lauslegri áætlun geta þá hækkað um eina 100 milljarða kr. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir. Þetta er mjög stór biti að kyngja á einu ári. Það er mikið verkefni að komast í gegnum að ráðast í slíkar breytingar sem þarna eru og koma okkur í gegnum þennan stóra skafl. En stærsta verkefnið er fyrst og fremst að halda þannig á málum að hinar miklu kjarabætur skili sér á endanum til þeirra sem þær eiga að fá og komi ekki í bakið á okkur öllum sem óðaverðbólga og minnkandi kaupmáttur vegna hennar eða kollsteypna í kjölfarið. Það er vegna þessara stóru verkefna sem við erum ekki að ræða um myndarlegan afgang af ríkissjóði í þessari fjárlagaumræðu. Það eru líka mörg önnur verkefni og breytingar sem meiri hlutinn beitir sér fyrir sem koma vissulega þar til viðbótar, eins og lækkun tolla og í fyrra lækkun vörugjalda sem eru líka kjarabætur fyrir almenning.

Í frumvarpinu eru tillögur um bætur og hækkun almannatrygginga og atvinnuleysisbóta um 9,7% og hafa þá hækkað eilítið frá því að frumvarpið var lagt fram í haust. Hækkunin á að taka gildi frá 1. janúar 2016. Hækkunin tekur mið af endurmetinni þjóðarspá Hagstofunnar um launavísitölu að frádregnu launaskriði. Það er hækkunin á meðaltöxtum, bæði á yfirstandandi ári og því næsta. Í því felst að meðaltalshækkun ársins 2015, sem var gerð með sömu forsendum, var um 3% þannig að hún var aðeins á undan almenna markaðnum og síðan sú hækkun sem boðuð er núna, 9,7%, sem þýðir að á tveimur árum hafa þessar greiðslur hækkað um 13%. Sé árinu 2014 líka bætt við erum við að tala um rétt um 17% hækkun á þessum greiðslum, sem eru langt umfram verðlag.

Mér finnst mikilvægt að við höfum þetta í huga, svo mjög sem er í kastljósinu umræða um nákvæmlega þessi útgjöld ríkissjóðs og þennan mikilvæga málaflokk, að við áttum okkur á því að sjaldan eða aldrei hafa verið stigin jafn stór skref til hækkunar í þessum málaflokki og til að bæta raunverulega kjör fólksins sem fær greiðslurnar. Þetta er um 10,1 milljarður kr. í útgjöldum sem liggur í þessum lið, 20 milljarðar í launahækkunum vegna kjarasamninga.

Þær miklu launahækkanir sem hafa orðið á árinu og rík krafa um verulegar kjarabætur hafa á margan hátt gert okkur dofin fyrir stærðum og raunveruleika. Það er í það minnsta mín tilfinning. Hér er mikið rót. Talað er um háar tölur og háar prósentur sem hefur tekið okkur eilítið úr sambandi við þann veruleika sem við þurfum samt að sjá í gegnum og megum aldrei missa sjónar á. Ég ætla ekkert að segja hér að við getum ekki séð fram á veginn öðruvísi en að taka einhver heljarstökk. Þótt maður vilji ekki taka heljarstökk er stökkið núna vissulega stórt. Það er mikið verkefni að fást við að koma standandi niður. Ég ætla heldur ekki að segja að við viljum ekki gera betur, því að við viljum gera betur, sérstaklega fyrir þá hópa sem ég nefndi sem eru þegar þeirra almannatrygginga og atvinnuleysisbóta sem ég fjallaði um. En lengri og stærri skref verða varla stigin að þessu sinni. Það tekur tíma að rétta kúrsinn í þeim efnum og ná þar stórum landvinningum.

En aðeins aftur um heimsóknir sveitarfélaga til fjárlaganefndar. Þar koma vissulega fulltrúar sveitarfélaga sem mörg hver eru stór og sterk, vel rekin, en líka fulltrúar sveitarfélaga sem nánast berjast fyrir tilveru sinni og tilverurétti. Þegar ég hef í upphafi tæpt á þeim helstu málum sem þessi sveitarfélög bera á borð fjárlaganefnd, eins og samgöngumál, fjarskiptamál, málefni hjúkrunarheimila og þar fram eftir götunum, verðum við líka að hafa í huga að það er hlutverk alþingismanna og þingsins þegar það starfar við að fara yfir fram komið fjárlagafrumvarp að hlusta á þau sjónarmið sem þar eru komin fram og reyna með einhverjum hætti að svara þeim athugasemdum sem sveitarfélögin bera inn á borð fjárlaganefndar.

Hvort sem við tölum um kjördæmaviku alþingismanna, sem kemur venjulega í kjölfar þess að fjárlagafrumvarp er lagt fram, eða heimsóknir til fjárlaganefndar þá teiknast verkefnið upp á undraskömmum tíma. Verkefnið er að svara hvernig við getum breytt áherslum sem birtast í frumvarpinu til að mæta óskum og kröfum sem eru rökstuddar af sveitarfélögum, sem best þekkja til í heimabyggðum sínum. Það er kannski þess vegna sem er áhugavert að vitna í nefndarálit fjárlaganefndar þar sem við reynum að gera þeim áherslum nokkur skil og svara spurningum og reynum að varpa ljósi á það hvað í það minnsta meiri hluti fjárlaganefndar telur að verði að verða breyting á eða til hvaða umræðu meiri hluti fjárlaganefndar vill hvetja í framhaldi af þessari vinnu.

Ég ætla að staðnæmast fyrst við samgönguframkvæmdir. Ég rakti áðan hversu gríðarlega stórar fjárhæðir ríkissjóður þarf að takast á við að greiða vegna nýgerðra kjarasamninga. Það er kannski fyrst og fremst þess vegna sem við erum ekki með í fjárlögum fyrir árið 2016 verulegar og myndarlegar upphæðir til að byggja upp innviði okkar í samgöngumannvirkjum, sem við þurfum vissulega á að halda. Þetta er einfaldlega sagt vegna þess að við höfum ekki fjármuni til að gera allt í einu. Það þýðir samt ekki að við þurfum að gefast upp eða segja að við getum aldrei farið í alvörusamgönguúrbætur. En veruleikinn er sá að víða um land býr fólk við það að þurfa að hristast á ónýtum malarvegum. Við keyrum börn í skóla um langan veg. Við notum enn þá einbreiðar brýr o.s.frv. Ég þarf ekki að lýsa því fyrir þingheimi hvernig almennt ástand vegakerfisins er í sumum héruðum þó að miklar og stórar framfarir hafi orðið á undanförnum árum. Allt saman rekur þetta til þess að við þurfum líka að hugsa um hvort við getum beitt einhverjum öðrum leiðum til að byggja upp samgöngukerfið okkar. Við horfum til dæmis á að við þurfum að ráðast í mjög stór samgönguverkefni á suðvesturhorninu, eins og breikkun Vesturlandsvegar, Sundabrautar, og breikkun Suðurlandsvegar. Meiri hluti fjárlaganefndar hvetur eindregið til að leitað verði annarra leiða eða skoðaðar aðrar leiðir til að fjármagna slíkar framkvæmdir svo þær megi komast sem hraðast fram. Þetta eru umferðarþyngstu mannvirki landsins. Þarna er um að ræða bæði hagsmuna- og umferðaröryggismál sem þarf að ráðast í úrbætur á með margar af þessum samgönguæðum. Ég tek fram að við erum líka að benda á að það þýðir þó ekki að það verði gjaldtaka með þeim hætti að einhver einn leggur af vegakerfi á suðvesturhorninu verði umfram aðra leggi, hvort sem við tölum þar um Reykjanesbraut eða Suðurlandsveg. Hins vegar held ég að við séum komin á þann stað að til þess að ná alvöruframförum í þessum málum verðum við að leita annarra leiða og annarra lausna til að koma okkur úr þeirri kyrrstöðu sem því miður hefur verið of lengi. En líka svo við getum raunverulega ráðist í innviðauppbyggingar.

Við megum ekki missa sjónar á því hvað við þurfum að gera í málum ríkissjóðsins sjálfs til að geta losað um fjármuni þar og ekki bara sagt að við ætlum að taka þetta með veggjöldum, því að við þurfum líka að byggja upp á landinu sjálfu þar sem síður er möguleiki á að fjármagna með öðrum tekjustofnum. Þá er einfaldast og skilvirkast að benda á í þeim efnum að ríkið sem handhafi og eigandi stórra fjármálafyrirtækja verður að geta á stuttum tíma losað þær eignir hratt og vel og greitt niður skuldir. Það er í sjálfu sér stóri útgjaldaliðurinn okkar sem við þurfum að saxa á hve hraðast, vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Það eru raunverulegir fjármunir sem við gætum notað til að byggja upp aðra innviði landsins, hvort sem við tölum um samgöngumál eða úrbætur í öldrunarmálum og svo mætti lengi telja. Meiri hlutinn leggur sérstaka áherslu á í nefndaráliti sínu að það þurfi hratt og vel að selja fjármálafyrirtæki og lækka skuldir ríkissjóðs og selja önnur félög og fyrirtæki sem ríkissjóður heldur á sem ekki eru nauðsynleg fyrir ríkisreksturinn sjálfan.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur líka til heilmiklar úrbætur og breytingartillögur um útgjöld til hafnarmála. Áhersla meiri hlutans er í þeim efnum fyrst og fremst á stálþil og dýpkunarframkvæmdir við löndunarbryggjur. Það er einfaldlega að koma upp þannig staða við margar af bryggjum okkar þar sem afla er landað að við megum ekki draga mikið lengur að ráðast þar í nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir.

Ég nefndi líka að í erindum sveitarstjórna til fjárlaganefndar eru umræðurnar um fjarskiptamál áberandi. Sá málaflokkur eða þær áherslur komast ofar og ofar á listann á hverju ári, enda getum við með mörgum hætti sagt að úrbætur í fjarskiptamálum séu nú brýnasta verkefnið sem við getum ráðist í í byggðamálum. Um það er mikil samstaða í þessum þingsal. Ég held að það skipti máli að við höldum áfram á þeirri braut og meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögur um að auka fjármagn í þeim lið. Núna er lagt til að það sé um hálfur milljarður til úrbóta í fjarskiptamálum á árinu 2016. Það eru gríðarlegir fjármunir. Það má um það deila hvort við færumst of mikið í fang við þá stöðu sem ríkissjóður er í eða hvort við eigum að vera þolinmóð og stíga hægar fram í þeim efnum. En þörfin og krafan um úrbæturnar er sterk. Ég held að þarna séum við ekkert síður að fást við það hvort ákveðnar byggðir verði samkeppnishæfar til lengri tíma.

Það er rakið í nefndarálitinu að starfshópur á vegum innanríkisráðherra hafi greint verkefnið og skilað um það tillögum um hvernig hægt sé að ráðast í að ljósleiðaravæða Ísland á þeim svæðum sem markaðurinn mun ekki leysa. Það gæti kostað um 5 milljarða króna en það skal tekið skýrt fram hér að það er ekki kostnaður sem á allur að lenda á ríkissjóði. Þetta verður alltaf samstarfsverkefni markaðsaðila, ríkissjóðs, eða fjarskiptasjóðs sem fulltrúa hans, og annarra aðila, hvort sem það eru sveitarfélög eða íbúar. Hálfur milljarður til fjarskiptamála á árinu 2016 er gríðarlega mikið og stórt skref en það er samt ekki stærra en svo að við erum enn að fást við það að klára hringtengingar á Íslandi og að tengja ótengda tengistaði eins og segir á táknmálinu, enda er rakið í nefndarálitinu hvar næstu framkvæmdir eru í þeim efnum, Drangsnes, Kópasker og Raufarhöfn og síðan í framhaldinu verður hægt að ráðast í fyrstu áfanga þess að byggja upp heimtaugarkerfið og ljósleiðaravæða Ísland, eins og góð samstaða er um í þessum þingsal.

Ég hef oft sagt að við vitum í raun ekki hvaða jákvæðu áhrifum við náum með því að hafa nútímafjarskipti með þeim hætti á Íslandi. Ég held að enginn geti árið 2015 eða 2016 sagt nákvæmlega til um hverju það muni breyta að hafa háhraðavædd og alvöruháhraðatengingar úti um byggt ból á Íslandi. Það eru að spretta upp alls konar nýsköpunarfyrirtæki og alls konar ný nálgun í gömlu og grónu atvinnulífi í landinu sem tengjast úrbótum í fjarskiptamálum. Við erum farin að sjá að það eru rekin gagnaver heima á sveitabæjum, sem er eitthvað sem við vorum ekkert með augun á bara fyrir ári síðan. Þetta er samt veruleikinn. Með bættum fjarskiptum eru menn komnir á þann stað í lífinu að það sé mögulegt.

Þetta er kannski annað áherslumál meiri hluta fjárlaganefndar við breytingartillögur í þessari umferð. Við höfum fleiri stórum verkefnum að sinna sem eru rakin í nefndarálitinu og ég geri ekki að sérstöku umtalsefni hér, annað en það að eðlilega er hluti af vinnu fjárlaganefndar að hlusta á áherslumál landshlutasamtaka, samtaka sveitarfélaga í hinum ólíku byggðum. Það hefur verið nokkuð mikið kastljós á að hér sé mikið af tillögum vegna Norðvesturkjördæmis og Norðvesturlands. Ég vil alveg stíga inn í þá umræðu og ræða um það frá mínum bæjardyrum séð eða bæjarhlaði hvers vegna svo er. Við rekjum það ekki í nefndarálitinu og ég ætla ekki að rekja það hérna í ræðustólnum hvernig mannlíf eða búseta hefur dregist saman á Norðvesturlandi, opinberum störfum hefur fækkað á undanförnum árum og við sitjum þar uppi með fábreytt atvinnulíf. Við erum með héruð sem að miklu leyti byggjast á frekar einhæfu atvinnulífi. Þetta eru stór sauðfjárræktarhéruð sem eru bakland byggðanna í Húnavatnssýslunum báðum og landbúnaðarhéruð, og útgerð reyndar á svæðinu líka og í Skagafirði. Það var einfaldlega kominn tími til að ráðast í átak í þeim efnum að reyna að bæta atvinnulíf og búsetuskilyrði í þeim héruðum. Það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ráðast í að skipa svokallaða norðvesturnefnd og í fjárlagafrumvarpsbreytingunum birtast nokkrar tillögur sem eru ættaðar úr því starfi.

Ég staldra líka við það að nefna að Alþingi ályktaði sjálft í janúar 2014 um átak í atvinnumálum í Austur-Húnavatnssýslu þar sem hvatt var til atvinnuuppbyggingar og starfs sem gæti stutt við atvinnuuppbyggingu á því svæði. Meiri hluti fjárlaganefndar er að gera tillögu um að lagðar verði einar 30 millj. kr. til að styðja samtök sveitarfélaga á svæðinu til að raunverulega framkvæma þessa ályktun Alþingis, þ.e. vinna að þeim verkefnum sem mögulega geta komið þar upp á borðið. Ég sé í minnihlutaáliti sem kynnt var í gær að talað er um álver í Skagafirði. Ég hef reyndar ekki frétt af neinu álveri í Skagafirði en sannarlega hafa verið umræður um álver við Hafursstaði á Skagaströnd. Og hvort sem það verður álver eða einhver annar kostur er gríðarlega mikilvægt fyrir þetta svæði að það verði öflug iðnaðaruppbygging, í hvaða atvinnugrein sem hún er, enda gengur ályktun Alþingis út á að styðja við að orka sem framleidd er í héraðinu verði nýtt á þeim stað.

Við höfum líka fjallað um það í meiri hluta atvinnuveganefndar sem tengist byggðamálum og tengist líka öðrum landshluta í landinu, sem hefur oft verið til umfjöllunar vegna veikingar byggðar og einhæfs atvinnulífs, sem er Skaftárhreppur. Við leggjum til í nefndaráliti okkar að unnið verði áfram með Skaftárhreppi. Skaftárhreppur hefur á undanförnum árum verið að vinna í verkefninu Brothættar byggðir með Byggðastofnun. Það sem við leggjum til er að með íbúum í Skaftárhreppi og í samstarfi við ríkið verði reynt að varpa ljósi á það hvernig hægt er að byggja upp innviði sveitarfélagsins hratt og vel og þá erum við að tala fyrst og fremst um fjarskipti og rafmagnstengingar eða lagnir fyrir rafmagn, þrífösun rafmagns er líka oft nefnd. Við drögum fram ályktun Alþingis um byggðamál frá vorinu 2014 þar sem fjallað er um að leita skuli leiða til að styrkja byggð í sveitarfélögum sem ekki njóta þess að hægt sé að styðja við byggð í þeim með aðgerðum í gegnum fiskveiðistjórnarkerfið. Við þekkjum það að í mörgum byggðarlögum er verið að beita úrræðum úr fiskveiðistjórnarkerfinu með því að úthluta byggðakvótum. En í landbúnaðarhéruðum hefur ekki verið um auðugan garð að gresja í þeim efnum hvaða tæki og tól við getum mögulega haft til þess að efla byggðir í þeim. Því gerum við um það tillögu að í 6. gr. komi almenn heimild um að jarðir í Skaftárhreppi eða jarðir almennt í eigu Jarðasjóðs ríkisins verði seldar. Hvort sem það verður að hluta eða að öllu leyti sem fjármunum sem þannig losna verður varið til að efla innviði í Skaftárhreppi er síðan annað mál. Þetta drögum við fram í meiri hlutanum sem einn þeirra þátta sem við þurfum að fara að gera upp hug okkar um og mæta með stefnumótun, t.d. hvernig við nálgumst eignarhald á ríkisjörðum.

Það komu fram athugasemdir í heimsóknum til atvinnuveganefndar í haust frá þó nokkuð mörgum sveitarfélögum um hvernig væri haldið utan um ríkisjarðir, hvernig væri staðið að því þegar yfir stæðu ábúendaskipti. Ég ætla ekki að rekja í langri sögu hvernig það er komið til að ríkissjóður á margar jarðir. Það er löng saga og reyndar nokkuð merkileg. Staðreyndin er sú að ríkið á nokkur hundruð jarðir sem eru reyndar margar í ábúð og ríkið hefur leiguliða. Það hefur ekki alltaf tekist sem skyldi að endurnýja ábúð á þeim jörðum. Þannig háttar til í Skaftárhreppi að þar eru óvenjumargar ríkisjarðir. Þar hafa verið að falla úr byggð á undanförnum mánuðum og árum ágætisjarðir sem vel hefði mátt búa á áfram ef menn hefðu hugað að því í tíma. Ég held að það sé enginn óeðlilegur ásetningur í þeim efnum, ég ætla ekki að halda því fram, en alla vega hefur þannig skipast málum að það virðist ríkja ákveðið stefnuleysi í þeim efnum. Þess vegna hvetjum við til í meiri hluta fjárlaganefndar að eigendastefna ríkisins og eignarhald á ríkisjörðum verði tekið til skarplegrar athugunar og reynt að móta framtíðarstefnu í þeim efnum. En horft til Skaftárhrepps eins og sér eru þar allmargar jarðir og jarðarpartar sem bæði mætti sameina öðrum jörðum með eðlilegri sölu, þ.e. með opinni sölu ríkissjóðs eða opinni sölu í gegnum Ríkiskaup, og aðrar bújarðir sem einar og sér geta staðið til sölu og á þeim væri síðan hægt að reisa myndarlegan búskap sem mundi aftur styrkja byggð og búsetu í Skaftárhreppi.

Þetta er eitt lítið dæmi til viðbótar af þeim fjölmörgu verkefnum sem voru borin inn á borð fjárlaganefndar af gestum á þessu hausti. Við teljum rétt að ýta úr vör einhvers konar verkefni sem getur í framhaldinu orðið til þess að svara ákalli sveitarstjórna sem þetta bera á borð fyrir okkur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um heimsóknir til fjárlaganefndar í haust og vinnuna sem þar er. Ég vil þó að lokum segja að vegna umræðu um hvernig á að undirbúa breytingartillögur og hvernig við höfum starfað þá er enginn ein regla eða ein aðferð í þeim efnum endilega réttari en önnur. Ég legg áherslu á að þau erindi sem berast til fjárlaganefndar frá sveitarstjórnum og landshlutasamtökum, færð inn á minnisblöðum eða erindum til fjárlaganefndar, sem oft og tíðum, í það minnsta þar sem ég þekki, eru nokkuð samhljóða þeim erindum sem þingmönnum berast í kjördæmavikum, enda fer hið eðlilega samtal við íbúa landsins fram með þessum hætti, þeim áherslupunktum sem þar eru dregnir upp af sveitarfélögunum er eðlilegt að við svörum á einhvern hátt. Ef við ætlum ekki að gera það ættum við að líka að segja að við ætlum ekki að bregðast við með nokkrum hætti. Þetta finnst mér vera mjög verðmætt samtal. Ég segi fyrir mína parta að ég hefði ekki viljað missa af þeim tíma og þeim fundum sem við áttum þarna í haust, þessum 42 heimsóknum sem teiknuðu algerlega upp fyrir okkur hver áhugamál fólksins eru, hvar eldarnir brenna. Við erum að sjálfsögðu ekki að bregðast við því öllu, ég ætla aldrei að halda því fram, en við höfum mögulega hvatt til einhverra framfara. Við höfum mögulega slökkt einhverja elda og við höfum mögulega komið einhverjum framfaramálum af stað.