145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:27]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég er ekki sammála nálgun þingmannsins hvað það varðar að ráðherrarnir viti ekki hverjar áherslurnar eru. Ráðherrarnir eru nú yfirleitt undantekning, þeir eru nú allir þingmenn. Þeir sitja sömu fundina í sömu kjördæmaviku og við og heyra þessar sömu áherslur. Það er líka verkefni þeirra að bregðast við áherslum og athugasemdum sem koma frá íbúum og sveitarfélögum og þegnum í þessu landi rétt eins og okkar í fjárlaganefnd, en okkar er verkið að fást við að breyta, koma með breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið á hverjum tíma. Við eigum að vinna það og hvort sem breytingartillögurnar eru fáar, ítarlegar eða margar þá er það ákvörðun á hverjum tíma. En í öllum aðalatriðum eru tillögur ríkisstjórnar sem sendar eru fjárlaganefnd til meðferðar líka viðbrögð við athugasemdum sem hafa komið fram í þessu frumvarpi; það var að þessu sinni eins og áður. Síðan er það einfaldlega meiri hlutans í fjárlaganefnd að ákveða hvort hann vill stíga lengra inn í málið eða taka inn fleiri mál og þannig hafa kaupin gerst.