145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég upplifi þetta bara svolítið þannig að fjárlagafrumvarpið sé alls ekki tilbúið þegar það er lagt fram. Það er í raun það sem ég er að gera athugasemdir við. Eftir því sem fjárlagafrumvarpið er betra þeim mun minni breytingar þarf væntanlega að gera.

Mig langar líka aðeins að spyrja út í eitt mál sem mér finnst töluvert alvarlegt. Það er verið að setja fjármagn í einstakar stofnanir og liði til að greiða upp rekstrarhalla eða koma í veg fyrir rekstrarhalla á næsta ári. Ég finn að minnsta kosti fjóra slíka liði í breytingartillögunum. Ég hef áhyggjur af því að ekki sé verið að gæta jafnræðis þarna.

Hafa hv. þingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar tekið að sér þetta verkefni þannig að þeir ætli að fylgjast með því að þær 15 milljónir sem fara í að greiða upp rekstrarhalla verði notaðar nákvæmlega í það? Hafa þeir gert úttekt á starfsemi viðkomandi stofnunar? Og hver ætlar að hafa eftirlit með því að rekstrarhalli verði ekki kominn aftur eftir tvö ár? Af hverju treysta menn ekki ráðuneytunum í þessi verkefni? Mér finnst ekkert jafnræði í þessu. Hver ákveður að þessi stofnun eigi að fá bætur af því að rekstrarhalli er yfirvofandi en ekki einhver önnur stofnun? Hvernig getur meiri hluti tekið ákvarðanir af þessu tagi?