145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:29]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þingið eigi alveg að hafa sjálfstraust til þess að gera breytingar á fjárlagafrumvarpinu eins og öllum öðrum frumvörpum sem til okkar berast. Um það hvort jafnræði ríki eða hvaða tæki meiri hluti fjárlaganefndar notar til að gæta að jafnræði, vil ég bara segja: Í því tilfelli sem ég tel að þingmaðurinn hafi verið að vísa til — 15 millj. kr. fjárveiting til Snorrastofu í Reykholtsdal, svo að við tölum bara um það; þurfum ekkert að vera í neinum getgátuleik með það — þá gleymir hann líka að segja að fjárlaganefndin ætlast til þess að gengið sé frá samkomulagi við þá stofnun. Erindi sveitarfélagsins til fjárlaganefndar snerist um það að staðarhald og fleiri þættir, vegna breytinga sem áður hafa verið gerðar á fjárhagslegum samskiptum stofnunarinnar við ríkið, eru ekki í lagi. Það er það sem fjárlaganefndin er að hnykkja á að verði gert og þessum rekstri þar með komið í lag. Við höfum síðan ekki tíma til þess að ræða um starfsemi stofnunarinnar þannig að við sleppum því að þessu sinni.