145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þar sem hann kom víða við enda stórt mál undir. Mig langar í fyrra andsvari mínu að byrja á að spyrja út í ummæli hv. þingmanns um að vegna útgjalda við kjarasamninga væri ekki svigrúm til að setja peninga í innviðina, þ.e. samgöngubætur. Nú mundi ég segja að það væri einfalt mál að fara í aukna skattlagningu eða falla frá tillögum um að hætta einhverri skattlagningu. En látum það liggja milli hluta í þessari spurningu. Hv. þingmaður sagði líka að hugsa ætti fyrir fleiri leiðum til að fjármagna framkvæmdirnar en ég skildi það sem svo að hann væri ekki að tala um gjaldtöku á tilteknum leggjum. Mig langar að biðja hv. þingmann að vera aðeins skýrari. Ef ég skil það rétt (Forseti hringir.) hjá hv. þingmanni að skattlagning komi ekki þarna til, hvaða leiðir eru það sem hv. þingmaður er að ýja að?