145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:34]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir seinni spurninguna. Ég tók eftir því í umræðunni í gær að menn vildu aðeins misskilja þennan hluta af nefndarálitinu. Mér er ljúft og skylt að reyna að bæta þar úr.

Þar sem við tölum um íþyngjandi löggjöf rekjum við annars vegar setta löggjöf um Matvælastofnun og eftirlit og hvernig það hefur farið úr böndunum. Hins vegar nefnum við málefni fatlaðra því að það kom skýrt fram og ég sagði í framsöguræðu minni að mörg sveitarfélög töldu að halli væri á þeim viðskiptum ríkis og sveitarfélaga. Við erum ekki að dæma málaflokkinn sérstaklega. Við erum einfaldlega að segja að þegar löggjöf er sett fram verður hún að vera að fullu fjármögnuð og menn verða að vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Meiri hluti fjárlaganefndar ákvað hins vegar, og það er rétt að það sé bara sagt, að fara ekki inn á það svið og gera miklar breytingartillögur vegna málefna fatlaðra á breiðum grundvelli. Við fengum upplýsingar um að um þau væri verið að fjalla í almennum samskiptum ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsleg málefni. Við væntum þess að niðurstaða komi af þeim viðræðum þannig að ég tjái mig ekki með beinum hætti eða kem með bein svör við öðrum spurningum þingmannsins.