145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Annað sem snertir líka byggðamál. Í þessu frumvarpi er dregið til baka 50 millj. kr. framlag til verkefnisins Brothættar byggðir. Hv. þingmaður talaði um það verkefni almennt en samt geta menn horft upp á það að þessir fjármunir séu ekki áfram inni til að vinna að því verkefni, sem er auðvitað mjög brýnt.

Mörg sveitarfélög sóttu um í þetta verkefni, eins og hv. þingmaður þekkir, en samt er þessum 50 milljónum, sem eru nú ekki stórar í stóra samhenginu, kippt út. Getur hv. þingmaður skýrt hvers vegna sá stuðningur er ekki áfram inni?

Varðandi samgöngumálin er það hrópandi í þessu fjárlagafrumvarpi að nær ekkert er sett til nýframkvæmda, viðhalds og reksturs. Það er bara smánarlegt. Hv. þingmaður talar um í því samhengi að ríkið sé að mæta svo miklum launahækkunum, 33 milljörðum, og það sé skýring á því hversu lítið sé áætlað til samgöngumála.

Er ásættanlegt að menn finni sér alltaf einhverja hillu til þess að setjast á til að geta afsakað það að ekki sé meira sett í samgöngumál þegar ferðamannageirinn skilar í gjaldeyristekjum yfir 300 milljörðum, 340 milljörðum kannski, að þá sé ekki borð fyrir báru til að setja neitt alvörufé í samgöngumál?

Hvaða skýringu hefur hv. þingmaður á því að ekki einu sinni samgönguáætlun líti dagsins ljós og menn séu kannski eins og á fjáraukalögum síðast að henda einhverjum peningum hist og her og engin samgönguáætlun liggi fyrir? Eru það ekki óásættanleg vinnubrögð? Vill hv. þingmaður ekki vera mér sammála í því að þarna þurfi að bæta úr?