145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016. Fjárlaganefnd hefur haft frumvarpið til meðferðar í talsverðan tíma og þar sem talað hefur verið um að dregist hafi að málið kæmi fram og starfsáætlun hafi raskast um tíu daga þá vil ég segja í upphafi að það sem sá sem hér stendur lagði höfuðáherslu á er að takast núna, og tókst reyndar í fyrra líka en ekki á þarsíðasta ári, en það er að taka meginþorra af breytingartillögum inn við 2. umr. fjárlaga. Jafnvel þótt dagskrá þingsins riðlist eilítið held ég að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir þingstörfin að við náum að klára megnið af breytingartillögunum fyrir 2. umr. fjárlaga eftir yfirferð með sveitarfélögum og öðrum þeim sem málið varðar.

Gerðar eru talsvert margar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið eins og komið hefur fram í máli margra þingmanna. Það sem mig langar að fara yfir sérstaklega eru byggðamál almennt og hvernig margar af þeim breytingartillögum sem við erum að vinna hér lúta að því að efla og styrkja landsbyggðina með einum eða öðrum hætti.

Áður en ég fer yfir einstaka tillögur langar mig að taka aðeins umræðuna um byggðamál og fjárlagagerð. Við höfum horft upp á það í allt of langan tíma að byggð er að hnigna víða í hinum dreifðu byggðum eða á afmörkuðum svæðum. Það eru svæði víða á landsbyggðinni sem glíma ekki við þennan vanda en Vestfirðir, Norðurland vestra, hluti af norðausturhorninu og hluti af suðausturhorninu glíma við viðvarandi fólksfækkun og byggðavanda og hefur gert í langan tíma.

Við efnahagshrunið var varað við því að þegar menn færu að hagræða í opinberum rekstri væri veruleg hætta á því að það kæmi illa við landsbyggðina sem á engan hátt naut þessa góðæris sem var á árunum fyrir efnahagshrunið, 2005, 2006 og 2007. Þá var lagt til að gerð væri sérstök byggðaúttekt á fjárlagafrumvarpi til að koma í veg fyrir það að þegar gerðar væru hagræðingarkröfur á einstök ráðuneyti og einstakar stofnanir mundu forstöðumenn þessara stofnana ósjálfrátt, og ekkert óeðlilegt við það, skera frá sér og hagræða fyrst og síðast í starfsstöðvum og starfsemi utan höfuðstöðva viðkomandi stofnana. En því miður varð þetta raunin með þeim afleiðingum að opinberum störfum fækkaði mjög mikið á mörgum landsvæðum og opinber þjónusta dróst einnig saman á mjög mörgum landsvæðum.

Það er þess vegna mjög ánægjulegt, þótt við séum ekki að ræða það mál hér, að við vinnslu á frumvarpi um opinber fjármál sem fjallar um það hvernig við vinnum fjárlagafrumvarp sé komið inn sérstakt ákvæði um að fjárlagafrumvarp hvers árs skuli fara í sérstaka byggðaúttekt og skuli ráðherra byggðamála móta reglur um hvernig sú úttekt fari fram. Slík byggðaúttekt sé gerð áður en frumvarpið er lagt fram á Alþingi. Auðvitað er ekki um efnislegar eða eiginlegar aðgerðir að ræða gagnvart landsbyggðinni og hinum dreifðu byggðum, en hins vegar er þetta ákveðinn varnagli. Þegar verið er að skipta fjármagni á einstaka stofnanir og útfæra það hvernig fjárlög birtast okkur eru menn sjálfkrafa meðvitaðir um það, ráðherrar og einstakar stofnanir, að frumvarpið eigi eftir að fara í gegnum slíka byggðaúttekt. Það mun til lengri tíma, tel ég, hafa jákvæð áhrif fyrir landsbyggðina. Byggðaúttekt á fjárlagafrumvarpinu mun liggja fyrir við 1. umr. þess og þá má sjá hvað það er gagnvart landsbyggðinni og hinum dreifðu byggðum sem ekki er nægilega vel búið um í frumvarpinu. Þá getur fjárlaganefnd nýtt sér þær upplýsingar í vinnu sinni til að betrumbæta fjárlagafrumvarpið milli 1. og 2. umr. og 2. og 3. umr. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt til lengri tíma litið að fá þetta inn, sérstaklega í ljósi sögunnar þegar við horfum upp á að á mörgum þessara svæða hefur byggðinni haldið áfram að hnigna.

Virðulegi forseti. Ég vil nú í máli mínu koma inn á nokkrar af þeim meginbreytingartillögum sem gerðar eru við frumvarpið og snúa að landsbyggðinni.

Ég vil byrja á umræðu um mál sem ég held að sé eitt mikilvægasta málið í byggðamálunum í dag og það lýtur að fjarskiptum og því verkefni sem lagt var upp með af þessari ríkisstjórn að ráðast í ljósleiðaravæðingu á öllu landinu. Ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem ungt fólk horfir til og setur í efsta sæti í dag þegar það hugsar um hvar það vill velja sér búsetu, þ.e. hvernig nettengingin er á staðnum.

Núverandi ríkisstjórn setti af stað átak sem miðaði að því að kortleggja hvernig væri mögulegt á sem hagkvæmastan og skynsamlegastan hátt að ljósleiðaravæða allt landið. Sú vinna var sett af stað af innanríkisráðherra, ráðherra fjarskiptamála, og í forustu fyrir þeirri vinnu fóru tveir þingmenn úr stjórnarliðinu sem eiga reyndar báðir sæti í fjárlaganefnd, Páll Jóhann Pálsson, hv. þingmaður Framsóknarflokksins, og hv. þm. Haraldur Benediktsson sem hefur talað hér í dag og kom meðal annars inn á þetta mál í sinni ágætu ræðu.

Nái breytingartillögurnar fram að ganga verður á næsta ári varið 500 milljónum til þess að halda áfram með það verkefni að ljósleiðaravæða landið. Það framlag bætist við þær 300 milljónir sem settar voru í verkefnið á síðasta ári. Það er svo að fjárlaganefnd hefur tekið nokkra forustu í þessu máli með fjárveitingum sínum á síðasta ári sem voru meðal annars notaðar til frekari undirbúnings á verkefninu og til þess að klára að hringtengja þau svæði sem átti eftir að hringtengja þegar kemur að ljósleiðaravæðingu. Fjárlaganefnd tók ákveðna forustu í því máli á milli 1. og 2. umr. á síðasta ári og veitti 300 milljónir til verkefnisins. Það gerir fjárlaganefndin aftur að þessu sinni, tekur ákveðna forustu í málinu og leggur til að veittar verði í heildina 500 milljónir og eykur þar af leiðandi um 200 milljónir frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga. Ef við skoðum umsagnir einstakra sveitarfélaga vítt og breitt um landið og áhersluatriði þeirra er mjög ánægjulegt að sjá að í þeim er ekki talað um að það eigi að tryggja góða nettengingu, það er talað um að hraða verði þeirri vinnu sem núverandi ríkisstjórn hefur sett af stað. Það er auðvitað gríðarlega mikil stefnubreyting frá því sem var vegna þess að það var mikið vonleysi á mörgum svæðum gagnvart því að það ætti að ráðast í slíka bragarbót á fjarskiptum. Áhersluatriðin núna eru: Getið þið ekki hraðað verkefninu? Getið þið ekki gert þetta hraðar en lagt er upp með? Það er auðvitað jákvæð hvatning og það er það sem fjárlaganefnd er að gera, hún gerir tillögu um að verkinu verði hraðað og undirstrikar pólitískt mikilvægi málsins þegar kemur að fjárveitingum.

Annað mál sem skiptir miklu máli lýtur að innanlandsflugvöllum. Við munum að á síðasta ári lagði fjárlaganefnd Alþingis til að veittar yrðu 500 milljónir til viðhalds og uppbyggingar á innanlandsflugvöllum. Við þekkjum þá umræðu sem verið hefur um þessi mál í gegnum tíðina. Það þarf að fjárfesta gríðarlega í Keflavík og Leifsstöð vegna aukins fjölda ferðamanna og það er auðvitað vel. En eftir sitja innanlandsflugvellirnir vítt og breitt um landið sem fá ekki nægilegt fjármagn til viðhalds og til innviðauppbyggingar. Það er ekki við neinn einn pólitískan flokk að sakast en í gegnum tíðina hefur vægast sagt verið ákveðinn vandræðagangur við að leita leiða til þess að flytja fjármagn úr millilandafluginu sem skilar gríðarlegum hagnaði, bæði flugið og rekstur fríhafnarinnar í Keflavík, yfir í innanlandsflugið.

Á síðasta ári lagði fjárlaganefnd til að tekinn yrði arður út úr Isavia, hækkaði þar af leiðandi arðsemiskröfu í fjárlagafrumvarpinu og gerði ráð fyrir að arðurinn yrði notaður til þess að ráðast í framkvæmdir á innanlandsflugvöllum. Í framhaldinu varð mikil fjölmiðlaumfjöllun um það mál og menn töldu að þetta kæmi illa niður á Isavia. Fjármálaráðuneytið ákvað síðan að ganga ekki á eftir þessari arðsemiskröfu og draga hana til baka og leiðrétta það núna í lok ársins vegna þess hve mikil þörf væri einnig á uppbyggingu í Keflavík. Eftir stóð í rauninni framkvæmdaféð og var sannarlega notað. Hluti af því er þegar komið til framkvæmda. Ég nefni flugvallarframkvæmdir í Árneshreppi sem þegar eru komnar til framkvæmda og hluti af þeim verða kláraðar í byrjun næsta árs, það eru verkefni sem eru komin af stað og um þetta fékk fjárlaganefnd upplýsingar á fundum sem haldnir voru við vinnslu fjárlagafrumvarpsins.

Fjárlaganefnd heldur áfram og leggur til á þessu ári að veittar verði 400 milljónir til áframhaldandi uppbyggingar á innanlandsflugvöllum. Í ljósi þess hve mikið þarf að fjárfesta í Keflavík og í ljósi þess að fjármálaráðuneytið á síðasta ári ákvað að ganga ekki á eftir arðsemiskröfu í Isavia er ekki gerð sú krafa af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar að sóttur verði arður til Isavia. Engu að síður leggur nefndin til að ráðist verði í framkvæmdir fyrir 400 milljónir á innanlandsflugvöllum vítt og breitt um landið.

Þá hefur fjárlaganefnd lagt til að á tveimur árum verði ráðist í uppbyggingu innanlandsflugvalla fyrir 900 milljónir. Þegar maður sér áherslurnar frá sveitarfélögunum og heyrir áhyggjur manna af flugvöllum víða um land — og þá er ekki eingöngu horft til flugvalla þar sem er áætlunarflug heldur líka flugvalla sem eru notaðir til sjúkraflutninga og sjúkraflugs — og horfir á hve mikið fjármagn vantar í viðbót til flugvallanna þá hefur maður á tilfinningunni að þessar 400 milljónir séu eins og dropi í hafið. En engu að síður er þarna verið að stíga veigamikil og jákvæð skref í þá átt að efla framkvæmdir og viðhald á innanlandsflugvöllum. Auðvitað er það svo í þessu eins og mörgu öðru að betur má ef duga skal. Ég held að ég sé ekki að rjúfa neinn trúnað þegar ég segi það sem ég sagði á fjárlaganefndarfundi; aðilar sem koma að þessu máli eins og Vegagerðin, innanríkisráðuneytið, Isavia og fjármálaráðuneytið, verða að fara að koma sér saman um og finna leið sem miðar að því að tryggja uppbyggingu innanlandsflugvallanna með sama hætti og unnið er að því að tryggja uppbyggingu í Leifsstöð. Fríhöfnin í Leifsstöð skilar gríðarlega háum tekjum til Isavia og það er borð fyrir báru, það er fjárhagslegt svigrúm til þess að ráðast í uppbyggingu innanlandsflugvalla. Meiri hluti núverandi fjárlaganefndar hefur ætíð lagt gríðarlega áherslu á þetta.

Annað mál sem fjárlaganefnd leggur til að veitt verði fjármagn í eru hafnarframkvæmdir. Gerð er tillaga um 400 millj. kr. framlag í Hafnabótasjóð til endurnýjunar á bryggjum og dýpkunar í löndunarhöfnum vítt og breitt um landið. Það er raunar eins með þetta mál og flugvellina að þarna eru mikilvægir innviðir sem hafa á undanförnum árum fengið allt of lítið fjármagn til viðhalds. Þessar 400 milljónir eru gríðarlega góð byrjun og það er jákvætt svo langt sem það nær. En hins vegar er með þetta eins og annað að það þarf meira fjármagn í þessa innviði og þarna stígur fjárlaganefnd mjög mikilvæg skref í þá átt með þessari áherslu og því fjármagni sem þarna er lagt til uppbyggingar í höfnum sem nýttar eru til löndunar víða um land.

Með þessum þremur stóru atriðum sem ég hef nefnt erum við að stíga mikilvæg skref í innviðauppbyggingu á landsbyggðinni. Við þurfum í auknum mæli að veita aukið fjármagn til innviðauppbyggingar vítt og breitt um landið. Það er nefnilega svo, virðulegi forseti, að það er hagur allrar þjóðarinnar að okkur takist að byggja upp öfluga byggð allt í kringum landið. Það er hagur allrar þjóðarinnar þegar fiskiskip kemur að bryggju á Vestfjörðum eða Austfjörðum og landar þar fiski og skapar gjaldeyrisverðmæti, rétt eins og það er hagur allrar þjóðarinnar að halda Húsavíkurflugvelli opnum eða byggja upp flugvöllinn í Árneshreppi. Við viljum halda landinu öllu í byggð og það er grundvallaratriði þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda vítt og breitt um landið, hvort sem það er í formi sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar eða með öðrum hætti og líka þegar kemur að ferðaþjónustunni og hvernig við ætlum að dreifa ferðamönnunum allt í kringum landið. Grunnurinn að því, til að það sé hægt, er að þar séu innviðir til þess að taka á móti ferðamönnunum og þar búi fólk sem geti þjónustað og starfað við þessa atvinnugrein sem er að verða ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar, ef ekki sú stærsta.

Þess vegna er það svo að byggðamál í orðsins víðasta skilningi er mál okkar allra, ekki bara mál íbúa sem búa á landsbyggðinni. Það er mál allrar þjóðarinnar vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt fyrir íbúa höfuðborgarinnar að öflug byggð sé á landsbyggðinni og öfugt.

Virðulegi forseti. Þetta er það sem meiri hluti fjárlaganefndar með þeim breytingartillögum sem lagðar eru fram hefur horft gríðarlega mikið til, að efla byggðaforgangsröðun eins og kostur er.

Þingmenn í minni hlutanum hafa talsvert talað um það að verið sé að veita óeðlilega mikla fjármuni til verkefna á Norðurlandi vestra. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá eru fjögur svæði á landinu sem glíma við óeðlilega mikla fólksfækkun. Það er Norðurland vestra, þ.e. Vestur- og Austur-Húnavatnssýsla og Skagafjörður, Vestfirðirnir og þá höfum við þar með Hólmavík, Strandirnar, Reykhólasveit og Dalabyggð, og hluti af Norðurlandi eystra og hluti af austanverðu Suðurlandi.

Mörg sveitarfélög á Norðurlandi vestra hafa komið fyrir fjárlaganefnd vegna þess að skipaður var ákveðinn hópur sem átti að fara yfir sóknarfæri í landshlutanum. Mörg sveitarfélög á þessu svæði hafa lagt gríðarlega áherslu á að þetta nái fram að ganga. Það hefur komið fram í máli þeirra þegar þau hafa komið fyrir fjárlaganefnd að þetta hafi verið kynnt með þeim hætti og lagt upp með þeim hætti að þetta gæti orðið fordæmi fyrir önnur svæði sem glíma við sambærilega byggðaþróun, þ.e. að heimamenn á svæðinu séu fengnir til þess að setjast niður, meta sóknarfæri sín eins og þarna er gert og koma með möguleg verkefni. Við eigum auðvitað að horfa til þess að þetta starf, sem virðist ætla að ganga mjög vel, geti verið fordæmi fyrir þau svæði sem ég nefndi áðan. Það er bara jákvætt þegar verið er að efla uppbyggingu í dreifðum byggðum og það er jákvætt þegar komið er með tillögur og unnið í því að setja fjármagn til landsvæða sem hafa glímt við mikla fólksfækkun og efla þau, rétt eins og það er jákvætt þegar unnið er að því að koma upp iðnaðaruppbyggingu á Húsavík eða efla héruð á Suðurlandi sem hafa átt í vanda og m.a. er lagt til hér í Skaftárhreppi. Það er jákvætt og við þurfum að horfa til þessa í miklu meiri mæli.

Það eru auðvitað fleiri mál sem fjárlaganefnd leggur til að veittir verði auknir fjármunir til og má þar nefna náttúrustofur sem hafa glímt við fjárhagsvanda eftir hrunið, háskóla á landsbyggðinni og svo mætti áfram telja.

Virðulegi forseti. Ef við setjum breytingartillögur meiri hlutans til hliðar og förum yfir stóru myndina þá erum við á þeim stað að gangi þetta frumvarp eftir, og engin ástæða til að ætla annað, verða þetta enn ein fjárlög núverandi ríkisstjórnar sem verða samþykkt miðað við það að ríkissjóður sé ekki rekinn með halla. Það er gríðarlega jákvætt að ríkissjóður sé rekinn réttum megin við núllið og ég trúi því að við eigum eftir að sjá, hvort sem það verður fyrir lok þessarar umræðu eða á næsta ári, enn meiri bata í ríkisfjármálunum þegar uppgjör við þrotabú föllnu bankanna fer að birtast okkur í fjárlögum. Það verður gríðarlega jákvætt en ég ætla að bíða með umræðu um þau mál þar til þau koma fram þrátt fyrir að margir þingmenn hafi tekið þau upp hér og ég farið í andsvör við einhverja þeirra.

En heilt yfir er það svo að sá sem hér stendur lagði mikla áherslu á að efla byggðavinkil fjárlaganna, auka fjármagn til hinna dreifðu byggða. Mér finnst það hafa tekist, mér finnst okkur hafa vel tekist til en auðvitað má alltaf segja betur má ef duga skal og þetta eru eilífðarverkefni. En fjárlagafrumvarpið sem við ræðum nú er skref í rétta átt þegar kemur að byggðamálum og við sjáum jákvæð teikn á lofti og jákvæð skref stigin og ég vonast til þess að þau geti orðið til þess að við förum að efla innviðauppbyggingu og að þetta sé liður í því sem og breytingar á frumvarpi um opinber fjármál, að snúa við þeirri byggðahnignun sem verið hefur á mörgum landsvæðum.