145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Ég veitti því eftirtekt að í henni var rík áhersla á byggðamál og fjárfestingu á landsbyggðinni. En ég gat ekki varist þeirri hugsun að velta fyrir mér hvern hv. þingmaður væri að reyna að sannfæra. Ég kemst eiginlega að þeirri niðurstöðu að hann þurfi kannski helst að sannfæra sjálfan sig varðandi þær áherslur. Ég vil minna hv. þingmann á að á síðasta kjörtímabili var ráðist í mjög víðtækt samráð við sveitarstjórnarmenn og aðila á landsbyggðinni og blásið til svokallaðrar sóknaráætlunar. Hún rataði inn í fjárfestingaráætlun sem var samþykkt í þinginu, fór í gegn og var samþykkt í þinginu, sem fól í sér að setja 1,2 milljarða í sóknaráætlun á hverju ári í þrjú ár til uppbyggingar á landsbyggðinni, fól í sér að setja 2,5 milljarða á sama árabili árlega í uppbyggingu á samgöngumannvirkjum á landsbyggðinni og að fjárfesta í innviðum og uppbyggingu ferðamannastaða á landsbyggðinni. Það fyrsta sem ríkisstjórnin gerði (Forseti hringir.) var að blása þetta af og tók sóknaráætlun niður í 15 milljónir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Í ljósi áherslna hans og áhuga á byggðamálum: (Forseti hringir.) Barðist hann fyrir því innan ríkisstjórnarflokkanna að (Forseti hringir.) þeirri fjárfestingaráætlun sem fól í sér svona stórbrotna uppbyggingu á landsbyggðinni yrði haldið til streitu?

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmenn að gæta að tímamörkum. Ein mínúta er fljót að líða.)