145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það þarf ekki að sannfæra mig um þessi mál vegna þess að mjög nauðsynlegt er að fjárfesta í innviðum, fjárfesta í viðhaldi á vegum, fjárfesta í samgöngum, fjárfesta í fjarskiptum, fjárfesta í uppbyggingu ferðamannastaða. Það vill svo til að ráðist var í þetta samráð, þar voru skilgreind markmið, þetta var ekkert sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar, þetta var sóknaráætlun sveitarfélaganna í landinu um uppbyggingu og þar sem jafnræðis var gætt en ekki bara peningum dælt í eitthvað eitt landsvæði, heldur var farið í landið allt. Samþykkt var í þinginu að fara í þá uppbyggingu. Var hún ekki fjármögnuð? Jú, hún var fjármögnuð meðal annars með hluta af arðinum sem verður til úti á landi. Áætlunin gekk út á það að skila þeim arði aftur þangað til uppbyggingarverkefna.

Og svo hins vegar var þessi fjárfestingaráætlun fjármögnuð með arði, að hluta, bara hluta af arðinum sem kemur af fjármálastofnununum og hann hefur aldeilis skilað sér. Það er því svolítið skrýtið (Forseti hringir.) að vera með svona mikinn áhuga á byggðamálum og uppbyggingu innviða úti á landi, en (Forseti hringir.) styðja ekki við bakið á einni metnaðarfyllstu áætlun um uppbyggingu úti á landi sem blásið hefur verið til.