145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér sýnist hv. þingmaður vera frekar fastur í umgjörðinni en efninu vegna þess að svo sannarlega er verið að styðja vel við landsbyggðina í fjárlagafrumvarpinu. Verið er að leggja til 400 milljónir í hafnir. Það er verið að leggja til 400 milljónir í flugvelli og 400 milljónir í ljósleiðaravæðingu landsins alls, sem er verkefni sem fór af stað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þetta bætist ofan á það að búið er að vinna í því að jafna að fullu húshitunarkostnað á köldum svæðum og dreifingu raforku. Ég vil segja að þessi tvö atriði, allt síðasta kjörtímabil og fyrri hluta þessa kjörtímabils, hafi verið rauður þráður í öllum umsögnum strjálbýlla sveitarfélaga, þessi tvö stóru atriði. Ríkisstjórnin er núna, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að gera stórvirki í þessum málum og er að breyta þeim á þann veg að við erum að ráðast í ljósleiðaravæðingu alls landsins og erum búin að jafna að fullu húshitunarkostnað á köldum svæðum. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður verður auðvitað að kynna sér áherslur þessara sveitarfélaga áður en hann kemur hingað upp (Forseti hringir.) og gagnrýnir þann sem hér stendur fyrir málflutning.