145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það er alveg rétt að ég var ekki hér á síðasta kjörtímabili. Þetta stingur dálítið í augun. Mér finnst þetta há fjárhæð sem er algjörlega óútfærð.

Hvað varðar það sem aðallega hefur verið talað um, niðurnjörvaðar fjárhæðir, ef hv. þingmaðurinn er að vísa í fjárhæðir sem fara í norðvestursvæðið, þá hef ég ekki heyrt gagnrýni á það per se heldur frekar að skortur sé á gagnsæi. Hér tel ég líka vera skort á gagnsæi. Það sem ég hef frekar heyrt varðandi norðvestursvæðið og tek undir er einmitt það sem kom fram í orðaskiptum hér áðan, að það þyrfti að hafa allt landið undir í því efni. Það er ekki vegna þess að þingmenn sjái ofsjónum yfir því að fjárhæðir fari í norðvestursvæðið, (Forseti hringir.) heldur skortir jafnræði þegar kemur (Forseti hringir.) að landinu öllu. Það er gagnrýnin sem ég hef heyrt varðandi það (Forseti hringir.) og skort á gagnsæi þar.