145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrir góða og yfirgripsmikla ræðu þar sem hún fór annars vegar mjög vel yfir það hvernig ekki er verið að leggja næga peninga í að styrkja innviði og heilbrigðiskerfið og hins vegar í það hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur verið að afsala sér tekjum sem eru einmitt svo mikilvægar til þess að hægt sé að styrkja þessa sömu innviði og velferðarkerfið. Ég vil þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir yfirferð hennar um lyfjamálin og þær fjöldatakmarkanir sem þar hafa verið settar á. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er náttúrlega út úr kú ef maður leyfir sér að nota slíkt orðalag héðan úr þessum ræðustól.

Það er eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um; hún talaði kannski ekki svo mikið um það í ræðu sinni en kom þó inn á það. Það er það sem varðar málefni fatlaðs fólks. Reyndar er mjög skrítið að í meirihlutaálitinu er fjallað um málefni fatlaðs fólks í kafla sem ber yfirskriftina Íþyngjandi löggjöf. Telur hv. þingmaður að við þurfum að skoða það hvernig fjármunum er varið? Þarf ríkið að koma með sterkari hætti inn í það (Forseti hringir.) og veita fjármuni til sveitarfélaganna til þess að fatlað fólk geti setið við sama borð óháð búsetu í landinu?