145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lögbundin grunnþjónusta er einmitt dálítið lykilatriði og að sjálfsögðu þarf að fjármagna hana. Það er annað sem mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í, sem hún kom að litlu leyti inn á í ræðu sinni en nefndi þó, og það er það sem varðar græna hagkerfið og loftslagssjóð. Það er í tillögu minni hlutans að þetta hvort tveggja verði styrkt. Er það ekki dálítið undarlegt, svo að ekki sé meira sagt, að að sama skapi og það eru fjölmargir fulltrúar héðan frá Alþingi staddir á loftslagsráðstefnu í París þá séu umhverfis- og auðlindaskattar lækkaðir og að markaðar tekjur (Forseti hringir.) séu hættar að vera eyrnamerktar loftslagsmálum heldur renni bara beint í ríkissjóð. Fer þetta saman?