145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:09]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ákveðið stefnuleysi, finnst mér, ríkjandi á Íslandi í auðlinda- og umhverfismálum. Ég hef lengi talað fyrir því, og Samfylkingin hefur haft það á stefnuskrá lengi og talað fyrir því, að það þurfi samræmdari stefnumótun varðandi allar auðlindir okkar. Við þyrftum að stofna auðlindasjóð og samræma betur sýn okkar á það hvernig atvinnuvegir, mengandi starfsemi og atvinnulífið, sem er með auðlindanýtingu á sinni könnu, greiða inn í samfélagssjóðinn þannig að við gætum byggt upp fjármuni eða sjóð til að mæta bæði aðsteðjandi umhverfisvanda, rannsóknum og vísindastarfi sem nauðsynlegt er að inna (Forseti hringir.) af hendi til að geta mætt aðkallandi áskorunum í umhverfismálum og til að byggja upp atvinnuvegina einmitt með markmið græna hagkerfisins að leiðarljósi.