145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að upplýsingafundir í nefndum á vegum Alþingis mundu skila árangri og þegar fólk héldi fram hlutum sem ekki reynast réttir mundu menn aðeins endurskoða orðalag sitt og hvernig þeir nálgast málin. En sú er ekki raunin hjá hv. þingmanni.

Starfsmenn sem vinna í kerfinu leysa þau mál sem upp koma. Ráðuneytið er allt að vilja gert til þess að gera það. Hins vegar reynir hér á samspil á milli þeirrar greinar stjórnarskrárinnar sem tryggja á sjúklingum rétt til sem bestrar heilbrigðisþjónustu, og svo fjárlaganna, vegna þess að ekkert gjald má greiða úr ríkissjóði nema það sé tiltekið í fjárlögum.

Þetta veit hv. þingmaður en kýs að halda áfram glórulausu tali sínu um sjúklingakvóta og segir að slíkt sé ástundað af ráðuneyti heilbrigðismála. Það er rangt og þrátt fyrir að við höfum átt ágætisupplýsingafund hér í dag skilaði hann ekki árangri þannig að hv. þingmaður breytti orðræðu sinni. Það er merkilegt.