145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Skömm stjórnarmeirihlutans er mikil þegar þessi hópur greiddi atkvæði gegn eðlilegum afturvirkum hækkunum á greiðslum til örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega á fundi hér í gær. Það var til skammar fyrir þennan meiri hluta og það er skiljanlegt að sami meiri hluti eigi erfitt með að hitta aldraða og öryrkja á fundi fjárlaganefndar, sérstaklega þar sem fyrir liggur að sá fundur mun verða opinn fjölmiðlum, enda er þessi umræða ekki þeirrar gerðar og ekki þess eðlis að hún varði einungis okkur sem hér erum. Þetta varðar allt Ísland, þetta varðar alla þjóðina og það er afar ósannfærandi, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að skýla sér á bak við það að ráðuneyti fjármála sé ekki tilbúið með tölur. Virðulegi forseti. Svo mikið veit ég, hafandi verið ráðherra í ríkisstjórn Íslands í fjögur ár, að fjármálaráðuneytið er að jafnaði tilbúið með tölur og allra helst akkúrat núna á dagatalinu þegar (Forseti hringir.) við erum komin hartnær inn í miðjan desember, þá er fjármálaráðuneytið tilbúið með tölur nema það þurfi að hnika þeim eitthvað til í þágu ömurlegs málstaðar meiri hlutans. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)