145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum að hlusta á talsmenn hv. stjórnarandstöðu. Af hverju? Vegna þess að það er ekki sjálfgefið, og ég þekki það því að ég er búinn að vera beggja vegna borðs og starfaði meðal annars með hv. þingmönnum hér þegar ég var í stjórnarandstöðu, að orðið sé við öllum óskum hv. stjórnarandstöðu þegar þær koma fram. Við höfum oft tekist á um slíka hluti.

Þegar þessi ósk kom fram var sagt að við skyldum reyna að gera þetta eins hratt og við gætum. Ég sagði á fundi í morgun að það væri að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að það næðist að fá fulltrúa ráðuneytisins á þennan fund með þau gögn sem þyrfti. Enginn mótmælti því, skárra væri það nú. Ég sagði meira að segja í prívatsamtölum í dag við alla hv. stjórnarandstæðinga sem ég náði í að það væru litlar líkur á því. Ég náði í alla í nefndinni nema einn held ég. Það að ganga svona til verka og sættast á það með glöðu geði (Forseti hringir.) að halda þennan fund ef mögulegt er — ef menn koma og gagnrýna það er það svolítið sérstakt svo að ekki sé dýpra í árinni tekið.