145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var ekki annað að heyra á hv. varaformanni fjárlaganefndar en að þingmenn ættu að vera honum ævinlega og endalaust þakklátir fyrir að hafa boðað til fundar af því að meiri hlutinn hefði af sinni góðmennsku ákveðið að verða við því. Það vill svo til að það er réttur þingmanna að boða til nefndarfunda í þinginu. Það er bundið í þingskapalög. Það var á þeim grunni sem minni hlutinn í fjárlaganefnd óskaði eftir aukafundi í fjárlaganefnd til að ræða þann atburð sem varð hér í gær þegar stjórnarliðar, nei-liðarnir gegn öryrkjunum, felldu sjálfsagða tillögu um að bæta öryrkjum kjör sín aftur í tímann eins og allir launþegar á Íslandi hafa fengið. Það var á þeim grunni sem það var gert og að þurfa að hlusta á það hér að stjórnarliða vanti gögn til að ræða málið eftir 2. umr. um fjáraukalögin.

Eftir 2. umr. um fjáraukalögin treysta stjórnarliðar sér ekki til að horfast í augu við öryrkja og aldraða á opnum fundi í fjárlaganefnd. Það er verið að skýla sér á bak við embættismenn í fjármálaráðuneytinu og væntanlega ráðherra líka (Forseti hringir.) og eitthvert talnaflóð sem skiptir engu máli í þessu sambandi.