145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sit ekki í fjárlaganefnd. Ég er bara einn þeirra þingmanna sem batt vonir við þennan fund, að það væri kannski að renna upp eitthvert samviskuljós hjá stjórnarmeirihlutanum. Það vekur athygli að menn skuli bera það fyrir sig að starfsmenn fjármálaráðuneytisins séu ekki tilbúnir með tölur. Hver var meiningin með þessum fundi? Var hún sú að kaffæra gesti með einhverjum talnaskylmingum eða var tilgangur fundarins að hlusta á sjónarmið aldraðra og öryrkja? Það er búið að reikna út hvað sú breyting kostar að leiðrétta afturvirkt til 1. maí, hún kostar 6,6 milljarða. En það hefur áður komið upp að erfitt sé að sannfæra formanna hv. fjárlaganefndar. Ég veit ekki betur en það hafi kostað 30 millj. kr. að sannfæra hana um að upplýsingar Landspítalans um rekstrarstöðu sína væru réttar, það kostaði 30 millj. kr. úttekt. En að ekki sé hægt að ganga að tölum (Forseti hringir.) sem eiga að vera til í fjármálaráðuneytinu um kostnað af þessari afturvirku leiðréttingu hljómar ekki sannfærandi. Þetta er yfirskin.