145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:35]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hélt að fundurinn sem átti að vera í kvöld hefði átt að vera á milli hv. fjárlaganefndar og fulltrúa öryrkja og aldraðra. Ég skil ekki alveg hvar ráðuneytin eiga að koma inn. Ég skil ekki til hvers við þurfum að blása þennan fund af einungis af því að þau eru ekki þarna. Mér finnst það einkennast dálítið af gömlu stjórnmálunum sem við erum að reyna að losa okkur við. Við þurfum að hlusta á þetta fólk og það sem það hefur fram að færa og ég hélt að fundurinn gæfi tækifæri til þess að hlusta.

Af hverju þarf ráðuneytið að vera þarna? Ég skil það ekki. Hvaða tölur er eiginlega að finna þar? Er þetta ekki allt saman í einhverjum excel-skjölum sem hægt er fletta upp og reikna saman? Ég skil ekki hvað á að vera svona flókið við þetta. Er kannski þörf á endurmenntun í ráðuneytinu? Hvað er eiginlega að? Eða er þetta eins og minnst var á hér, var ætlunin bara að drekkja fólki með tölum og glærusýningum eins og oft hefur gerst?