145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það má vera að einhverjir hv. þingmenn hafi ekki þá reynslu sem við höfum í hv. fjárlaganefnd af því að fara yfir ríkisfjármálin. Það er algerlega nýtt ef menn eru alltaf sammála um tölur og hvernig beri að túlka þær o.s.frv., það er þá algerlega nýtt. En þetta snýst ekki um það. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við höldum þennan fund og hann verður haldinn. Hann verður haldinn í hádeginu á morgun og við ætlum að fá þar fulltrúana sem óskað var eftir. Ef við ræðum þessi mál fáum við að sjálfsögðu öll þau gögn sem nauðsynleg eru til að taka þessa umræðu. Fagna ekki allir því? Er ekki mjög mikilvægt að taka þessa umræðu? Ég held að enginn geti haldið því fram af neinni sanngirni að einföldustu hlutir í ríkisfjármálum sé bótakerfi almannatrygginga. Ég held að ég taki ekkert stórt upp í mig þegar ég segi að það eru ákveðin flækjustig í því. En það er ekki aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er að beðið var um fund og við urðum við því, ekki á milli umræðna. Við vorum með ákveðinn fyrirvara á því (Forseti hringir.) og það vissu allir hv. nefndarmenn í fjárlaganefnd. (Forseti hringir.) Fundurinn frestast örlítið en við höldum hann og hann verður örugglega alveg prýðilegur.