145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við skulum nú ekki vera að flækja málið að óþörfu. Minni hlutinn óskaði eftir því að fjárlaganefnd fundaði með Landssambandi aldraðra og Öryrkjabandalaginu, það var það sem var óskað eftir. Það var síðan meiri hlutinn sem lagði áherslu á að á þeim hinum sama fundi væru fulltrúar fjármálaráðuneytisins. Það er ekkert sem mælir á móti því, forseti, og ég legg það til að fundurinn verði haldinn í kvöld eins og áætlað var, með öldruðum og öryrkjum sem hafa þegar lýst sig tilbúna til að mæta á fundinn. Ef meiri hlutinn treystir sér ekki til að mæta þeim röksemdum sem þar koma fram og treystir sér ekki til að taka umræðuna við aldraða og öryrkja, sem ég er ekki hissa að hann sé í vandræðum með, er auðvitað sjálfsagt að taka annan fund á morgun með ráðuneytinu þannig að ráðuneytið geti stutt meiri hlutann, þá væntanlega með einhverjum talnagögnum, ef það er það sem meiri hluti fjárlaganefndar þarf, ef meiri hlutinn treystir sér ekki til að hitta þetta fólk. Þá þarf auðvitað að hafa ákveðinn skilning á því. En það er engin ástæða til annars en að halda fundinn með þeim aðilum sem óskað var eftir í byrjun að funda með.