145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:43]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir að þessum fundi skuli vera frestað nú því að þó að ég hafi mjög litla reynslu af setu í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili man ég það þó að fjárlaganefnd hafði fyrir framan sig allar þær tölur sem hún þurfti til að vinna með fjárlög næsta árs, þar með talið hversu hátt væri hægt að fara í fjárveitingum til hvers málaflokks. Ég gef mér það að núverandi meiri hluti fjárlaganefndar hafi haft greiðan aðgang að öllum tölulegum upplýsingum frá ráðuneyti fjármála og velferðarmála.

Mér þykja þetta afskaplega slæleg vinnubrögð gagnvart þeim sem virðist eiga að skilja eftir núna í fátæktargildru og ég vona að tilfinning mín um að verið sé að velta vandamálunum og heigulshættinum yfir á embættismenn ráðuneytisins og ráðuneytanna sé röng.