145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í gær, þegar við báðum um fundinn, var talað um að lágmarksfyrirvari til að boða fólk á fund væri hæfilegur í kvöldverðarhléi í kvöld. Hið sama virðist ekki eiga við um afboðun hans gagnvart þessum sömu gestum þannig að það skýtur skökku við ef við hugsum bara um það. Ég vil bara ítreka að mér finnst þetta mjög sérstakt. Þegar ég ræddi við félaga mína í minni hlutanum um að fá þetta fólk á fund til okkar var það fyrst og fremst til að hlusta á sjónarmið þess, ekki til þess að meiri hluti og minni hluti fjárlaganefndar gæti farið að karpa um hvort einhver hefði gert eitthvað einhvern tímann, heldur fyrst og fremst að hlusta á þetta fólk, síðan gætum við sest niður, hvort sem fólk vildi þá leika sér með tölur eða ekki. Mér finnst miklu mikilvægara að hugsa um þetta fólk sem hér hefur kallað eftir því að fá leiðréttan þann mismun sem verður enn meiri ef þetta gengur ekki eftir núna, þ.e. afturvirkt til 1. maí; þá verður gliðnunin enn meiri á milli þeirra lægst launuðu og öryrkja og eldri borgara. Það er það sem við erum að tala um, við erum að tala um einskiptisaðgerð. Við erum ekki að tala um þetta inn í fjárlög 2016, þau standa, en einskiptisaðgerð til að laga þessa stöðu.