145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og bendi honum á að skattgreiðendur eiga alveg vin í mér líka. Mér rennur mjög til rifja þegar ég sé illa farið með skattfé og mér finnst mikilvægt að það skipti máli þegar við útdeilum fé að það sé gert með gagnsæjum hætti og að jafnræði ríki, þess vegna hef ég gagnrýnt mjög sérkennilegar breytingartillögur meiri hlutans.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í skuldaniðurfellinguna. Ég er mjög andsnúin þeirri aðgerð. Ég tók eftir því í umræðu um skuldaniðurfellinguna að það voru held ég þrír sjálfstæðismenn sem tóku til máls og töluðu þeir allir gegn niðurfellingunni. Svo talaði flutningsmaður málsins, sem var hæstv. fjármálaráðherra, en auðvitað ekki gegn henni. Aðrir héldu sig til hlés en studdu þó þennan fjárlagalið þegar kom að atkvæðagreiðslu.

Mig langar til að vita hvort hv. þingmanni finnist það góð ráðstöfun á almannafé að setja 80 milljarða plús í niðurfærslu til fólks sem tók verðtryggð lán í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn talar nú fyrir ábyrgð einstaklingsins og að menn beri ábyrgð á skuldbindingum sínum. Mér finnst það ekki vera í anda Sjálfstæðisflokksins sem talar um ábyrgð í ríkisfjármálum, þótt það sé kannski meira í orði en á borði, ég skal ekki segja. Ég hefði gaman af að heyra hvað hv. þingmanni finnst um þetta. Ef hann sæti hér í atkvæðagreiðslunni, ég býst við að hann verði farinn af þingi, mundi hann þá vera með mér á rauða takkanum þegar kæmi að því að afgreiða 15,5 milljarða í þessa aðgerð?