145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir þessa spurningu. Það er auðvitað verið að særa fram einhverjar yfirlýsingar hér. Ég skal alveg viðurkenna að ég var ekki hlynntur því að fara þá leið sem farin var þegar kom að skuldaleiðréttingunni svokallaðri. Ég taldi að hægt væri að fara aðrar skynsamlegri leiðir sem kæmu fleirum og þjóðfélaginu betur til nota. Ég held að ég hafi farið aðeins yfir það í ræðu minni áðan hvernig ég tel að við höfum nýtt fjármuni ríkisins, 242 milljarða kr. frá aldamótum, á vitlausan hátt. Ef við ætlum að setja 242 milljarða í húsnæðismál setjum þá þá í húsnæðismál með skynsamlegum hætti þannig að við hjálpum því fólki sem er að berjast við að eignast sína fyrstu íbúð og byggja þar með undir séreignarstefnuna.

En það er auðvitað þannig, og það þekkir hv. þingmaður, að þegar menn eru í stjórnmálum og eiga samstarf styðja þeir hver annan og gera málamiðlanir. Ef það kæmi til þess að ég væri staddur í þingsal við afgreiðslu þessa mál mundi ég auðvitað styðja ríkisstjórnina í því, annað væri algjört ábyrgðarleysi.