145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:22]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þingmanns er eins og tónlist úr Skagafirði í mínum eyrum, annaðhvort eftir Eyþór Stefánsson eða Geirmund Valtýsson. Ég er hjartanlega sammála, það sem hv. þingmaður sagði er vandinn í hnotskurn sem við er að glíma, sem er kerfislægur eða glíma við kerfið. Ég veit ekki betur en að hv. þm. og formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, og varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi einmitt bent á að það er með ólíkindum hvernig kerfið ver sig og í rauninni tekur stundum völdin (Gripið fram í.) af fjárveitingavaldinu sem á að vera hér. Það á að vera sameiginlegt kappsmál allra hv. þingmanna að taka völdin aftur til baka og marka stefnuna hér en ekki í ríkisstofnunum, ekki ráðuneytunum o.s.frv. Það á að vera sameiginlegt verkefni og ég er til í þessa vegferð, hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir.