145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég var í hjarta mínu ósammála mörgum tillögum um niðurskurð í tíð síðustu ríkisstjórnar, en ég vissi að nauðsynlegt var að ráðast í það. Mergurinn málsins í því sem hv. þingmaður var að segja og var í ræðu hans, að minnsta kosti í þeim parti sem ég hlýddi á, var þessi: Hann telur að undir forustu formanns Sjálfstæðisflokksins sé ríkisstjórninni ekki að takast nægilega upp í að hemja útgjöld, ekki í því að standa gegn stofnun nýrra stofnana. Ég er honum sammála um það, algjörlega, en það þýðir lítið fyrir hann og hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson að koma hingað eins og hvítskúraðir englar, að ég segi ekki eins og drengir á leið í sunnudagaskóla, og fjargviðrast út í þeirra eigin verk. Þessir tveir herramenn ætla báðir að greiða atkvæði gegn tillögum sem munu leiða til þess að opnað verður sendiráð sem við lokuðum áður, sem verða tvær nýjar stofnanir og sem leiða til þess að á tímum þegar aldrei hefur jafn mikið góðæri verið, segir landsbankastjórinn, þá er okkur ekki að takast (Forseti hringir.) upp betur en í fyrra að því er varðar afgang á ríkisfjárlögum. Þetta er náttúrlega ekkert annað en fall (Forseti hringir.) á prófinu. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, með fullri virðingu að (Forseti hringir.) ræða hv. þingmanns sýnir það að þá hefur bara einum fjármálaráðherra tekist að skera niður almennilega og það var Steingrímur J. Sigfússon. Þeir ættu að ganga í skóla (Forseti hringir.) hans. (Gripið fram í.)